| Heimir Eyvindarson

Hverjir koma með Klopp?

Það kemur vonandi ekkert í veg fyrir það að Jurgen Klopp skrifi undir hjá Liverpool í vikunni, en nú er spurningin hverjir koma með kappanum.

Að öllum líkindum verður gengið formlega frá ráðningu Klopp á morgun og hann mun þá hafa rúma viku til að undirbúa liðið fyrir leikinn gegn Tottenham 17. október. Það þykir öruggt að Klopp muni taka einhverja þjálfara með sér og ekki ólíklegt að það verði einhverjir af hans fyrrum samstarfsmönnum. 

Þeir sem helst hafa verið nefndir í því sambandi eru Zejlko Buvac og Peter Krawiets, en þeir hafa lengi verið samherjar Klopp.

Zejlko Buvac er 54 ára gamall Bosníumaður. Hann hefur verið hægri hönd Klopp í 14 ár, en leiðir þeirra lágu fyrst saman árið 1992 þegar þeir léku saman hjá Mainz. Buvac hefur verið lýst sem miklum snillingi þegar kemur að leikskipulagi, æfingum og í rauninni flestu sem snýr að knattspyrnuíþróttinni. Oft hefur því verið haldið fram að Buvac sé skipuleggjandinn en Klopp komi inn með ástríðuna og verkstjórnina.

Nuri Sahin leikmaður Dortmund, sem lék um tíma með Liverpool, kallar þá Klopp og Buvac ,,fótboltatvíbura". ,,Þeir sjá knattspyrnuna með nákvæmlega sömu augum og vinna mjög vel saman. Buvac fer örugglega með Klopp til Liverpool", segir Sahin. 

Peter Krawietz er 43 ára gamall Þjóðverji. Líkt og Buvac vann hann einnig með Klopp hjá Mainz og Dortmund. Hann var yfirnjósnari hjá Mainz og aðstoðarþjálfari hjá Dortmund. Hann þykir afar fær í leikgreiningu, bæði á sínu liði og liðum andstæðinganna.

Þessir þrír, Klopp, Buvac og Krawietz vinna mjög vel saman og það verður að teljast mjög líklegt að þeir taki höndum saman á nýjan leik hjá Liverpool.  

Fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir meðlimir í nýju þjálfarateymi Liverpool. Markmannsþjálfarinn Wolfgang De Beer, sem hefur þjálfað markverði Dortmund síðan 2002, hefur nokkuð oft verið nefndur í slúðurmiðlum, en hann er í starfi hjá Dortmund og Liverpool mun því þurfa að fara í samningaviðræður við þýska félagið ef það á að ganga.

Því hefur verið haldið fram að núverandi markmannsþjálfari Liverpool, Hollendingurinn John Achterberg, verði látinn taka pokann sinn líkt og Gary McAllister og Sean O´Driscoll. Sögusagnir um brotthvarf Achterberg fóru raunar einnig af stað þegar Brendan Rodgers tók við liðinu, en Hollendingurinn er enn í starfi. Hver veit. Kannski kemur De Beer með Klopp. 

Það er auðvitað ekkert í hendi ennþá, ekki einu sinni ráðning Klopp, en ef litið er til þeirra sem geta talist nokkuð áreiðanlegir heimildamenn þá verður Klopp kynntur til sögunnar á morgun og líklega Buvac og Krawietz sömuleiðis. Meiri óvissa ríkir um aðrar stöður í þjálfarateyminu. Líkurnar á að De Beer verði markmannsþjálfari virðast reyndar vera einhverjar, en önnur nöfn sem nefnd hafa verið til sögunnar eins og Didi Hamann, Sami Hyypiä og Markus Babbel er ekkert hægt að segja til um á þessari stundu.

Við sjáum hvað setur, en það er ljóst að það eru spennandi tímar framundan. 

YNWA!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan