| Heimir Eyvindarson

Gengið frá ráðningu fyrir helgina

Allt bendir til þess að formlega verði gengið frá ráðningu Jurgen Klopp fyrir vikulokin. Viðræður milli FSG og Klopp eru sagðar í fullum gangi og litlar líkur taldar á að eitthvað óvænt komi upp á. 

Sagt er samningurinn sem er á borðinu sé til þriggja ára og eina stóra málið sem eigi eftir að fá almennilega á hreint gæti verið það hver hefur síðasta orðið þegar kemur að leikmannakaupum. FSG mun vilja halda áfram með kaupnefndina og það á í sjálfu sér ekki að vera vandamál fyrir Klopp, hann vann við svipaðar kringumstæður hjá Dortmund á sínum tíma, en hann vill hafa það alveg skýrt að hann eigi síðasta orðið. 

Zeljko Buvac sem var aðstoðarstjóri Borussia Dortmund meðan Klopp var þar - og er raunar enn - og Peter Krawietz sem er í þjálfaraliði Dortmund og fylgdi Klopp frá Mainz til Dortmund á sínum tíma munu báðir verða í þjálfaraliði Klopp hjá Liverpool, eftir því sem heimildir herma. Það rennir stoðum undir orðróminn sem fór af stað strax á sunnudag um að Gary McAllister og Sean O´Driscoll myndu báðir hverfa á braut. 

Það virðist vera að ráðningin sé svo að segja frágengin og alls ekki ólíklegt að það sé dálítið um liðið síðan FSG setti sig í samband við Klopp. Veðbankar eru sumir hverjir hættir að taka við veðmálum um það að Klopp taki við Liverpool, þannig að orðið á götunni er allavega nokkuð einróma. Þegar við bætist að menn eins og Tony Barrett og Chris Bascombe, sem eru vel tengdir Liverpool, fullyrða að Klopp sé á leiðinni þá er lítið annað að gera en að bíða eftir formlegri tilkynningu.  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan