| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Leikmenn Liverpool tölta yfir á Goodison Park í hádeginu á morgun og freista þess að landa sínum fyrsta sigri þar undir stjórn Brendan Rodgers.

Það má segja að það ríki ákveðið jafnræði með þessum fornu fjendum þessa dagana, þótt stuðningsmenn Everton séu talsvert ánægðari með tilveruna en stuðningsmenn Liverpool. Þeir bláklæddu eru reyndar ofar í deildinni, en það munar bara einu stigi á liðunum. Everton er með 12 stig, en Liverpool 11. Þrátt fyrir að það geti varla talist merkileg stigasöfnun eftir 7 umferðir er staðan í deildinni samt sem áður sú að sigur í dag getur komið hvoru liðinu sem er á topp 5.

Eftir helgina tekur við landsleikjahlé og sumir vilja meina að ef Liverpool tapar í dag þá verði pásan notuð til þess að setja nýjan mann inn í starf Brendan Rodgers.

Hvort sem það verður raunin eða ekki þá er ljóst að hann fær ekki marga sjénsa í viðbót í vetur. Það þarf svosem ekki að eyða mörgum orðum í það hvernig ástandið er á liðinu. Við þekkjum það orðið allt of vel.

Það verður að segjast eins og er að það hefur oft verið meiri tilhlökkun í manni fyrir borgarslag, en því miður er stemnings- og andleysi í kringum liðið okkar og erfitt að gera sér vonir um að liðið hafi burði til að taka öll stigin þrjú gegn baráttuglöðu liði Everton.

Baráttan um Bítlaborgina hefur getið af sér 20 rauð spjöld og það hefur oft verið líf og fjör í þessum leikjum, en einhvernveginn sér maður ekki fyrir sér fullt af mörkum og fullt af spjöldum. Reyndar eru orðin nokkur ár síðan síðasta rauða spjaldið fór á loft í Merseyside Derby, það var 2011 þegar Jack Rodwell fékk að fjúka útaf. Það spjald var síðar dregið til baka.

Allar viðureignir Everton og Liverpool frá því að Brendan Rodgers kom til sögunnar hafa endað með jafntefli, sem er kannski ekkert sérstakt afrek hjá okkar mönnum en samt sem áður er blessuð sagan hliðholl Liverpool eins og svo oft áður. Everton hefur aðeins unnið eina af síðustu 17 viðureignum liðanna í deildinni, það var á Goodison Park í október 2010 þegar Roy Hodgson var og hét. Leikurinn endaði 2-0 fyrir Everton.

Það eru allar líkur á að leikurinn í dag verði sá fyrsti milli liðanna í 29 ár þar sem enginn Scouser er í liði Liverpool. Eini heimamaðurinn sem á möguleika á að vera með er Jordan Rossiter, en það er ólíklegt að hann byrji leikinn. Sennilegast er að byrjunarliðið verði það sama og Brendan stillti upp gegn Aston Villa um liðna helgi, en vonandi kemur Christian Benteke þó inn í hópinn eftir fjarveru vegna meiðsla. Henderson, Firmino, Lovren og Flanagan eru ennþá meiddir.

Það eru líka meiðslavandræði í herbúðum Everton, en Leighton Baines, Tom Cleverley, Tony Hibbert og Steven Pienaar eru allir meiddir. Þá tekur Kevin Mirallas út síðasta leikinn í þriggja leikja banni í dag. Seamus Coleman og John Stones sem voru hvorugir með í sigri Everton á WBA á mánudaginn verða hinsvegar að öllum líkindum orðnir leikfærir, sem styrkir heimamenn talsvert.

Það er lítil bjartsýni í manni fyrir þennan leik en maður getur samt ekki annað en haldið í vonina. Ég ætla að spá 2-1 sigri með mörkum frá Ings og Sturridge.

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan