| Sf. Gutt

Mario lánaður til AC Milan


Mario Balotelli hefur verið lánaður til AC Milan en Liverpool keypti hann þaðan fyrir einu ári. Ítalski landsliðsmaðurinn er búinn að fara í læknisskoðun í Mílanó og allt frágengið. Það kemur ekki nokkrum manni á óvart að Mario muni ekki spila með Liverpool á þessari leiktíð og nú er hann kominn með samastað.


Óhætt er að segja að Mario hafi algjörlega brugðist þeim væntingum sem voru gerðar til hans þegar hann kom óvænt til Liverpool í ágúst í fyrra. Brendan Rodgers hafði nokkrum vikum áður sagt að það stæði alls ekki til að fá Mario til félagsins. Þegar Mario kom svo til Liverpool sagði Brendan að tekin hefði verið útreiknuð áhætta. Sú áhætta borgaði sig ekki því Mario skoraði aðeins fjögur mörk í 28 leikjum. 


Mario til varnar má segja að það hafi komið honum manna verst að Daniel Sturridge skyldi meiðast strax eftir að hann kom. Þeir virtust ná vel saman í fyrsta leik Mario þegar Liverpool vann Tottenham 0:3. Það liggur jú fyrir að Mario getur ekki spilað einn í framlínu. Brendan hefði kannski átt að reyna að láta einhvern spila með honum eftir að Daniel meiddist. Hann hafði jú Fabio Borini og Rickie Lambert til þess. En Mario virtist missa móðinn fljótlega eftir komuna til Liverpool og að auki hefur nú spurst út að hann var eins og slóði á Melwood og ekki góð fyrirmynd. Það var því ekki tilviljun að hann var skilinn eftir heima þegar Liverpool fór til Asíu og Ástralíu fyrr í sumar.


Vonandi kemur Mario lagi á sjálfan sig hjá AC Milan því hann býr yfir hæfileiknum í íþróttinni sem eiga að geta gagnast honum og því liði sem hann spilar með getur. Þó svo að Mario hafi ekki opinberlega yfirgefið Liverpool þá má mikið vera að hann spili aftur fyrir hönd félagsins!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan