| Grétar Magnússon

Vinnusigur í fyrsta leik

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og ekki hægt að segja að hann hafi verið skemmtilegur á að horfa. En fáir spá í það þegar stigin þrjú eru tekin með trompi og glæsilegu sigurmarki Philippe Coutinho til að hefna ófaranna gegn Stoke frá því í vor.

Liðsuppstilling Brendan Rodgers kom fáum á óvart. Christian Benteke byrjaði sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik fyrir félagið og Dejan Lovren var við hlið Martin Skrtel í vörninni en þetta voru tvö helstu spurningamerkin fyrir leik. Fleiri ný andlit mátti sjá í leikmannahópnum, Joe Gomez og Nathaniel Clyne léku í bakvarðastöðunun og James Milner á miðjunni með Henderson. Aðrir nýliðar í leikmannahópnum máttu sætta sig við að sitja á bekknum, þeir Danny Ings, Divock Origi, Adam Bogdan og Roberto Firmino.

Leikurinn fór rólega af stað í blíðunni í Stoke On Trent. Í raun var fátt markvert sem gerðist í fyrri hálfleik fyrir utan þrjú gul spjöld sem litu dagsins ljós hjá dómaranum. Það var þó helst að heimamenn væru líklegri til að skora en á 36. mínútu náðu þeir að leika upp hægri kantinn og Marko Van Ginkel sendi fyrir markið. Boltinn fór í varnarmann og yfir Mignolet sem náði ekki að slæma hendi í boltann. Martin Skrtel náði þó að hreinsa frá en þó ekki langt og leikmaður Stoke náði skoti úr teignum sem Clyne komst í veg fyrir. Boltinn barst þá til Glen Johnson sem nú er orðinn leikmaður Stoke og hann hafði tíma til að leggja boltann fyrir sig á miðjum vítateig og skjóta á markið en boltinn fór sem betur fer yfir.

Sóknaraðgerðir Liverpool manna voru hægar og fyrirsjáanlegar að flestu leyti og engin ógn var að marki Stoke, það var því ágætt fyrir leikmenn að komast til búningsklefa í hálfleik og ráða ráðum sínum með Brendan Rodgers.

Heimamenn byrjuðu þó af krafti í seinni hálfleik og eftir aðeins 30 sekúndur hafði Mignolet varið skot frá Van Ginkel sem þó stefndi alltaf framhjá markinu. Stoke sóttu mikið upp hægri kantinn þar sem Joe Gomez átti fullt í fangi með að verjast Jonathan Walters en ungliðinn stóð sig þó ágætlega. Gestunum óx þó ásmegin eftir því sem leið á leikinn og náðu að spila boltanum betur á milli sín þó án þess að skapa stórhættu, Clyne komst í góða stöðu hægra megin í teignum en sending hans rataði ekki á samherja. Skömmu síðar fengu Stoke aukaspyrnu og Charlie Adam spyrnti boltanum inná teig þar sem Diouf var nærri því að ná til boltans og koma honum á markið.

Coutinho gerði svo vel í að snúa af sér varnarmann og leika inní teig þar sem varnarmenn náðu að komast í boltann, hann náði þó að vinna boltann aftur en ekki að skjóta á markið, boltinn barst þá til Benteke sem skaut í varnarmann og þar með var hættan úr sögunni. Martin Skrtel skallaði svo að marki eftir hornspyrnu en Butland í markinu var vel á verði, ekki svo löngu síðar átti Milner flotta sendingu innfyrir á Henderson sem var í góðri stöðu hægra megin í teignum en hann og Benteke voru ekki á sömu bylgjulengd er sending Henderson fór allt aðra átt en Benteke hljóp í.

Allt leit því út fyrir að markalaust yrði í leiknum, innkoma Emre Can og Roberto Firmino fyrr í seinni hálfleik höfðu þó aðeins hleypt lífi í leikinn en það var svo þegar aðeins fjórar mínútur voru til leiksloka að Coutinho fékk boltann frá Joe Gomez og sneri hann Steve Sidwell laglega af sér. Hann lék að vítateignum en lét svo þrumuskot með vinstri fæti ríða af og boltinn söng í marknetinu óverjandi fyrir Butland. Frábært mark og því var vel fagnað.

Heimamenn reyndu að jafna leikinn en höfðu ekki erindi sem erfiði og frábær þrjú stig á erfiðum útivelli því í höfn !

Stoke: Butland, Johnson, Cameron, Muniesa, Pieters (Wollscheid, 45. mín.), Van Ginkel, Whelan, Walters, Adam (Sidwell, 78. mín.), Afellay (Odemwingie 78. mín.), Diouf. Ónotaðir varamenn: Given, Ireland, Joselu, Crouch.

Gul spjöld: Charlie Adam og Ibrahim Afellay.

Liverpool: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Gomez, Milner, Henderson, Coutino, Lallana (Can, 63. mín.), Ibe (Firmino, 78. mín.), Benteke. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Toure, Moreno, Origi, Ings.

Mark Liverpool: Philippe Coutinho (86. mín.).

Gul spjöld: Martin Skrtel, Dejan Lovren, Joe Gomez og James Milner.

Áhorfendur á Brittannia: 27.654.

Maður leiksins:  Það verður að segjast að Philippe Coutinho hlýtur nafnbótina að þessu sinni enda skoraði hann stórglæsilegt mark sem tryggði þessi flottu þrjú stig sem í boði voru. Brasilíumaðurinn voru þó mislagðar fætur í leiknum oft á tíðum en þegar hann getur skorað svona mörk í leikjum er honum fyrirgefið allt. Dejan Lovren verður þó minnst hér líka þó svo að hann fái ekki útnefninguna en hann átti góðan leik í vörninni, tapaði varla skallaeinvígi og var fastur fyrir.

Brendan Rodgers: ,,Að vinna hér eftir það sem gerðist í vor var mjög mikilvægt. Við sýndum mikinn karakter og mikla ákveðni sem lið og gæði okkar skinu í gegn í lokin. Mér fannst úrslitin í síðasta leik okkar hér vera eitthvað sem gerist aðeins einu sinni. Það var slæmur dagur og það var mikilvægt fyrir okkur að koma hingað og ná úrslitum. Leikmennirnir geta núna gleymt þessu og einbeitt sér á að halda áfram veginn."

Fróðleikur:

- Philippe Coutinho skoraði fyrsta mark tímabilsins fyrir Liverpool.

- Brasilíumaðurinn hefur skorað fjögur mörk á árinu og þrjú þeirra hafa verið með skotum fyrir utan vítateig.

- Þeir Nathaniel Clyne, Joe Gomez, James Milner, Christian Benteke og Roberto Firmino spiluðu allir sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik fyrir félagið.

- Þessi lið mættust einmitt í fyrsta leik tímabilsins árið 2013 á Anfield og þá unnu Liverpool menn líka 1-0.

- Þetta var aðeins annar sigur Liverpool á Brittannia leikvanginum í Úrvalsdeildinni.

- Fyrsti sigurinn var 5-3 sigur 12. janúar 2014.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan