| Grétar Magnússon

Breytingar á leikjum

Tilkynnt var í dag um breytingar á sjö leikjum liðsins í Úrvalsdeildinni á komandi tímabili. Eru þessar breytingar tilkomnar vegna sjónvarpsútsendinga og þátttöku liðsins í Evrópudeildinni.

Nágrannaslagurinn við Everton á Goodison Park hefur verið færður til sunnudagsins 4. október og hefjast leikar kl. 12:30 að íslenskum tíma.

Heimsókn til Lundúna til að etja kappi við Tottenham Hotspur er þann 17. október en leikurinn hefur verið færður í tíma og verður fyrsti leikur dagsins, nánar tiltekið kl. 11:45 að íslenskum tíma.

Heimaleikur við Southampton hefur verið færður til sunnudagsins 25. október og verður flautað til leiks kl. 16:15 að íslenskum tíma, athugið að þarna er kominn vetrartími í Bretlandi og leikir þar hefjast þá á sama tíma og hér á Íslandi.

Þann 31. október er leikur við Chelsea á Stamford Bridge og verður það fyrsti leikur dagsins sem er laugardagur og byrjar hann kl. 12:45. Annar stórleikur á útivelli er gegn Manchester City og verður hann laugardaginn 21. nóvember kl. 17:30.

Vegna Evrópudeildarleikja liðsins hafa svo tveir leikir verið færðir yfir á sunnudag, sá fyrri er viðureign við Crystal Palace sem verður kl. 16:00 8. nóvember og sá seinni gegn Swansea City kl. 16:15 þann 29. nóvember. Báðir þessir leikir eru á Anfield.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan