| Sf. Gutt

Sigursælir fyrrum leikmenn

Nokkrir af fyrrum leikmönnum Liverpool náðu að vera sigursælir í öðrum liðum á nýliðinni leiktíð. Tveir unnu allt sem hægt var að vinna. Tekið skal fram að ekki er endilega um tæmandi upptalningu að ræða og er beðist velvirðingar ef einhver eða einhverjir hafa orðið útundan.






Þeir Javier Mascherano og Luis Suarez voru fastamenn í liði Barcelona sem vann Þrennu. Spænsku deildina, spæsku bikarkeppnina og svo Evrópubikarinn. Luis skoraði eitt marka Barca í úrslitaleiknum í Berlín þegar 3:1 sigur vannst á Juventus. Þetta er í annað sinn sem Javier vinnur Evrópubikarinn en hann varð líka Evrópumeistari árið 2011. Luis skoraði drjúgt af mörkum á leiktíðinni og Javier var grjótharður í vörninni. Hann hefur unnið fjölda af titlum með Barca síðustu ár.





Xabi Alonso var lykilmaður í liði Bayern Munchen á sinni fyrstu leiktíð í Þýskalandi. Hann spilaði mjög vel á miðjunni og varð þýskur meistari. Jose Reina var í liðshópi Bayern en spilaði örfáa leiki enda Manuel Neuer besti markmaður heims jafnan í markinu.

 

John Arne Riise lék með Apoel á Kýpur. Fyrsta leiktíð hans með liðinu hefði ekki getað verið betri því liðið vann bæði deild og bikar.



Christain Poulsen er nú kominn í raðir F.C. Kaupmannahafnar en þar lék hann áður en ferill hans með stórliðum Evrópu á borð við Ajax, Juventus og Liverpool hófst. Hann varð danskur bikarmeistari í vor ef rétt er vitað. 


Danny Wilson var í liði Hearts sem vann sér sæti í efstu deild í Skotlandi. Hearts vann næst efstu deildina með miklum yfirburðum. Hann var fyrirliði Hearts en kom svo öllum á óvart í vor með því að ganga til liðs við Rangers sem ekki komst upp. Danny hóf einmitt feril sinn hjá Rangers og kom þaðan til Liverpool. 


Ungverski markmaðurinn Peter Gulacsi varð meistari í Austurríki með Red Bull Salzburg. Hann varð líka meistari í fyrra og þá vann liðið líka bikarkeppnina. Peter var á mála hjá Liverpool frá 2008 til 2012 en lék aldrei með aðalliðinu. Hann er nú kominn í landslið Ungverja. 


Að lokum skal þess getið að Robbie Keane varð Norður Ameríkumeistari með Los Angeles Galaxy fyrir 2014 en úrslitaleikurinn fór fram í desember. Robbie skoraði sigurmarkið í úrslitaleiknum en í honum vann Los Angeles New England Revolution 2:1.



  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan