| Sf. Gutt

Annar sigur í Ástralíu

Liverpool lék í morgun að íslenskum tíma seinni leik sinn í Ástralíuferðinni. Líkt og fyrri leikurinn þá vannst þessi líka. Liverpool lagði heimamenn í Adelaide að velli 2:0.

Líkt og gegn Brisbaine þá tefldi Brendan Rodgers fram sterku byrjunarliði gegn Adelaide United. Leikurinn byrjaði rólega en Liverpool var alltaf með undirtökin.

Belginn Divock Origi átti fyrstu marktilraunina eftir 20 mínútur en skot hans, eftir undirbúning Joe Allen, fór beint á Eugene Galekovic í markinu. Jordan Ibe, sem var frábær, lék inn í vítateiginn nokkrum mínútum seinna en skot hans fór sömu leið á markmann heimamanna.

Eftir rúman hálfltíma átti Adelaide sína fyrstu marktilraun þegar leikmaður liðsins skaut á markið í hornspyrnu en boltinn fór rétt yfir. James Milner átti síðustu alvöru marktilraun hálfleiksins þegar hann skaut við vítateiginn en Eugene verði. James spilaði mjög vel eins og í fyrstu tveimur leikjunum og virðist geta orðið lykilmaður á komandi leiktíð. Ekkert mark í leikhléi. 

Alberto Moreno kom inn á sem varamaður í hálfleik. Þetta var fyrsti sumarleikur hans eftir meiðsli. Dejan Lovren, sem kom inn í vörnina, fékk dauðafæri eftir horn stuttu eftir leikhlé en skalli hans fór í jörðina og yfir. Á 59. mínútu átti Adam Lallana fast skot frá vítateig sem Eugene varði mjög vel.

Liverpool komst svo loksins yfir á 67. mínútu. Jordan Ibe gaf fyrir markið og á markteignum teygði James Milner sig í boltann og stýrði honum í markið. Vel gert en markið hefði ekki átt að standa því James var rangstæður. Fimm mínútum seinna ógnuðu heimamenn þegar Tarek Elrich náði boltanum rétt utan vítateigs og skaut að marki. Boltinn fór sem betur fer í utanverða stöngina og framhjá.

Þegar tólf mínútur voru eftir tryggði varamaðurinn Danny Ings sigurinn með fyrsta marki sínu. Nathaniel Clyne sendi þá hárnákvæma sendingu inn fyrir á Danny sem lék á Eugene í markinu og skoraði örugglega. Vel gert hjá Danny sem hefur verið grimmur í sókninni. Það var löglegt mark dæmt af honum í Tælandi en núna kom fyrsta markið honum til mikillar ánægju.

Þetta var í sjálfu sér góður sigur og þó mótherjinn hafi ekki verið mjög erfiður þá spilaði liðið vel eins og í fyrstu tveimur leikjunum og leikmenn voru duglegir og áhugasamir. Liverpool spilar næst í Malasíu á föstudaginn.   

Liverpool: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Gomez (Moreno 45. mín.), Allen (Markovic 84. mín.), Henderson, Milner (Leiva 73. mín.), Ibe, Lallana og Origi (Ings 68. mín.).

Mörk Liverpool: James Milner og Danny Ings.

Áhorfendur á Adelaide Oval leikvanginum: 53.008.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér má sjá og heyra áhorfendur í Adelaide syngja You´ll Never Walk Alone.



 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan