| Heimir Eyvindarson

Sterling til City fyrir 49 milljónir punda

Svo virðist sem fárinu í kringum Raheem Sterling sé nú loks að ljúka. Liverpool og Manchester City hafa náð samkomulagi um kaupverð og hann verður væntanlega kynntur sem leikmaður City strax á morgun.

Kaupverðið mun vera 44 milljónir punda við undirskrift og 5 milljónir að auki eftir árangurstengdum leiðum. Ekki hefur enn komið fram hverjar þær klásúlur eru nákvæmlega, en samkvæmt Liverpool Echo telja forráðamenn Liverpool allavega fullvíst að félagið muni á endanum fá allar 5 milljónirnar sem klásúlurnar kveða á um. 

Í Liverpool Echo segir jafnframt að fulltrúar Manchester City og Liverpool hafi átt í viðræðum allt frá því seinnipartinn á föstudag og fulltrúum Liverpool hafi tekist að mjaka City frá 44 milljónum upp í 49, sem verður að teljast ásættanlegt verð fyrir leikmann sem ólmur vill komast frá félaginu - og ekki langt frá ásettu verði.

Gangi þetta eftir verður Sterling dýrasti enski leikmaðurinn sem hefur verið seldur milli liða í ensku Úrvalsdeildinni. Salan á Sterling er jafnframt sú þriðja stærsta í sögu Liverpool. Aðeins Luis Suarez (75 milljónir-Barcelona) og Fernando Torres (50 milljónir-Chelsea) hafa farið fyrir hærri upphæð. Þess ber þó að geta að uppeldisfélag Sterling, QPR, fær 20% af upphæðinni, eða rétt tæpar 10 milljónir punda.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan