| Heimir Eyvindarson

Svona virkar kaupnefndin

Kaupnefndin sem ræður því hvaða leikmenn eru keyptir til Liverpool hefur verið þó nokkuð í umræðunni undanfarna mánuði og alveg ljóst að ekki eru allir stuðningsmenn sáttir við hennar störf.

Í Liverpool Echo er farið aðeins yfir það hvernig nefndin er skipuð og hvaða hlutverki hver nefndarmaður gegnir. Kemur þar ýmislegt í ljós, til dæmis að jafnvel þótt Brendan Rodgers fái ávallt að eiga síðasta orðið þá fær hann ekki endilega að velja hvaða leikmenn hann má eiga síðasta orðið um. 


Kaupnefndina skipa Brendan Rodgers, Ian Ayre, Mike Gordon, Dave Fallows, Barry Hunter og Michael Edwards. 


Gróflega má skipta nefndinni í tvennt; þrír yfirmenn (Rodgers, Ayre og Gordon) og þrír njósnarar/tækninördar (Fallows, Hunter og Edwards).

Ef við byrjum á því að fara yfir hlutverk toppanna þá þekkjum við kannski hlutverk Ian Ayre best. Hann er maðurinn með veskið. Sá sem sér um daglegan rekstur félagsins í Liverpool og aðal tengiliður félagsins við FSG í Boston. Hann er maðurinn sem klárar málin, samanber flugferð hans til Chile um daginn þar sem hann gekk frá kaupunum á Roberto Firmino.

Ayre hefur verið hjá Liverpool síðan 2007, var ráðinn af Hicks og Gillette en átti síðan sinn þátt í því að þeir hrökkluðust burt úr bítlaborginni. 

Mike Gordon er hæst settur þeirra sem í nefndinni sitja. Hann er forseti FSG og á 12% hlut í fyrirtækinu. Einungis John W. Henry á stærri hlut, eða 40%. Mike Gordon hefur verið lykilmaður í málefnum Liverpool undanfarin 3 ár en þrátt fyrir það myndu líklegast fæstir stuðningsmenn Liverpool þekkja hann úti á götu. Hann gefur ekki viðtöl og er ekkert fyrir athygli fjölmiðla. Þannig vill hann hafa það, heldur sínu einkalífi algjörlega fyrir sig og lætur almennt lítið fyrir sér fara út á við. Við látum fylgja mynd af kappanum, ykkur til glöggvunar - ef þið skylduð nú rekast á hann. 

Gordon, sem er fimmtugur, þótti snemma mikill undrahundur í fjármálageiranum og var orðinn þekktur fjárfestir strax upp úr aldamótum. Hann hefur verið viðriðinn FSG allt frá því að samsteypan eignaðist Boston Red Sox árið 2002. Allar meiriháttar ákvarðanir FSG á fjármálasviðinu eru bornar undir hann, eða fara beint í gegnum hann. Hann er fyrst og fremst markaðsmaður, en hefur einnig mikla þekkingu á knattspyrnu. John W. Henry hefur sagt að Gordon hafi langmesta knattspyrnuþekkingu allra í FSG og samkvæmt Henry er Gordon meira og minna í daglegum samskiptum við Brendan Rodgers.

Brendan Rodgers spilar vitanlega stórt hlutverk í nefndinni. Nefndin er auðvitað tilkomin vegna þess að hann neitaði að vinna undir stjórn yfirmanns knattspyrnumála (director of football) sem FSG lagði til þegar hann var ráðinn. Þegar ljóst var að Brendan litist ekki á það módel var kaupnefndin búin til sem nokkurskonar sáttaleið. 

Brendan á í raun bæði fyrsta og síðasta orðið í nefndinni. Hans hlutverk er að upplýsa nefndina um það hvaða stöður hann telji að þurfi að styrkja og ef honum sýnist svo getur hann stungið upp á einhverjum álitlegum leikmönnum í þær stöður. Síðan fer nefndin í gegnum það hvaða leikmenn henta best í viðkomandi stöður, af þeim sem tiltækir eru, og ef eitthvað er að marka umfjöllun Liverpool Echo hefur það gerst að þeir leikmenn sem á endanum hljóta náð fyrir augum nefndarinnar eru ekki endilega þeir sem Brendan stakk upp á í upphafi. 

Ýmislegt getur orðið til þess að þeir leikmenn sem Brendan stingur upp á fá ekki grænt ljós hjá nefndinni. Stundum eru þeir einfaldlega of dýrir til þess að fjárfestingin sé talin þess virði og eins getur það gerst að nefndin telji að viðkomandi leikmenn séu ekki nægilega góðir. 

Þegar búið er að sía þá leikmenn frá sem teljast annaðhvort of dýrir eða ekki nógu góðir þá getur það gerst að kostirnir sem eftir standa séu ekki efstir á óskalista Rodgers. Skýrasta dæmið um það mun vera þegar hann fékk að velja milli Samuel Eto og Mario Balotelli í byrjun síðustu leiktíðar. Í umfjöllun Echo er þó tekið skýrt fram að enginn leikmaður hafi verið keyptur til Liverpool í valdatíð Rodgers án þess að hann hafi samþykkt kaupin. 

Njósnara/nördahluti nefndarinnar samanstendur annarsvegar af tveimur aðal njósnurum félagsins, Dave Fallows sem er titlaður director of scouting og Barry Hunter sem ber titilinn chief scout og hinsvegar tölfræðinördinum Michael Edwards sem er titlaður director of technical performance. 

Dave Fallows er sá sem hefur yfirumsjón með öllu njósnaneti félagsins. Þegar Rodgers tilkynnir nefndinni að hann telji að það þurfi að styrkja einhverjar stöður þá fer Fallows í það að teikna upp lista með vænlegum kandidötum. Þar nýtur hann stuðnings njósnara sem Liverpool hefur á sínum snærum út um allan heim. Fallows var áður hjá Manchester City og er sagður hafa átt stóran þátt í að byggja upp alþjóðlegt njósnanet félagsins, en hann þykir mikill tæknigúrú. Hann hefur verið hjá Liverpool síðan 2012.

Þegar listinn liggur fyrir þá er það hlutverk Barry Hunter að fara betur yfir einstaklingana á listanum, í samvinnu við aðra njósnara félagsins, og gera nákvæmari greiningar, skýrslur og þessháttar. Líkt og Fallows var Hunter einnig á mála hjá Manchester City áður en hann gekk til liðs við Liverpool árið 2012. Hunter var yfirnjósnari City í Rússlandi, Sviss og á Ítalíu.

Michael Edwards er svo sá sem rýnir í tölfræði leikmanna út um allan heim og gerir allskonar tölfræðilegar athuganir og uppgötvanir. Hann kom til Liverpool þegar Damien Comolli var yfirmaður knattspyrnumála, en hann hafði áður unnið með Comolli hjá Tottenham. Hann passar vel inn í módel FSG, en frægt er að John W. Henry og félagar leggja mikið upp úr tölfræðinni. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan