| Heimir Eyvindarson

Þetta er Nathaniel Clyne

Nýjasti leikmaður Liverpool var formlega kynntur til sögunnar í morgun. Hann heitir Nathaniel Clyne. Hér kynnumst við honum aðeins betur. 

Nathaniel Edwin Clyne er Lundúnadrengur og hóf ferilinn með Crystal Palace. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Palace í október 2008 og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið tveimur dögum síðar. Hann vann sér fljótt fast sæti í liðinu og 2009 og 2010 var hann valinn besti ungi leikmaður tímabilsins hjá Palace. Vorið 2011 var hann svo valinn leikmaður ársins hjá félaginu. 

Sumarið 2012 gekk Clyne til liðs við Southampton, sem var þá nýkomið upp í Úrvalsdeild. Hann var fastur maður í liði Southampton svo að segja allan sinn tíma þar og lék alls 104 leiki með suðurstrandarliðinu á þeim þremur leiktíðum sem hann var hjá félaginu.

Clyne hefur leikið með U-19 og U-21 landsliðum Englands og er nú kominn í A-landsliðið. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í nóvember 2014, í 3-1 sigri enskra á Slóveníu, og hefur alls leikið 5 A-landsleiki fyrir England.

Liverpool greiddi Southampton 12,5 milljónir punda fyrir Clyne, sem átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum. Talið er að hann fái 90 þúsund pund í vikulaun, en það eru reyndar óstaðfestar fréttir.

Clyne segist vera himinlifandi með að vera kominn til Liverpool. Hann segir að fyrrum félagi sinn hjá Southampton, Adam Lallana, hafi átt mikinn þátt í því að sannfæra sig um að Liverpool væri rétti klúbburinn. Þá fer hann einnig fögrum orðum um Brendan Rodgers og leikstíl Liverpool liðsins.

,,Ég hef alltaf haft mikið álit á Liverpool sem félagi. Ég er líka mjög hrifinn af Brendan Rodgers. Hann vinnur gríðarlega vel með ungum leikmönnum og honum gengur vel að ná því besta út úr þeim. Ég er viss um að ég á eftir að taka miklum framförum undir hans stjórn. Hann hefur lofað mér að ég fái séræfingar með honum og ég hlakka til þess. Ég mun leggja mig allan fram um að tryggja mér sæti í liðinu."

,,Ég hef tekið miklum framförum á undanförnum árum og ég vil halda áfram að bæta mig. Ég er viss um að það mun takast hjá Liverpool. Ég trúi því að þetta sé rétt skref fyrir mig og ég vona að ég eigi eftir að vinna titla með Liverpool. Hópurinn er sterkur og við eigum alveg að geta keppt við bestu liðin."

Það er ljóst að Nathaniel Clyne virðist ekki bara vera hörkuleikmaður. Það er ekki annað að sjá en að hugarfarið sé líka í góðu lagi. Hann er sterkur bakvörður og það er nokkuð ljóst að það mun styrkja liðið að fá hann í stað Glen Johnson. Á síðustu leiktíð átti hann fleiri tæklingar og stoppaði fleiri sóknir en nokkur annar hægri bakvörður í deildinni. Þá átti hann einnig flestar fyrirgjafir hægri bakvarða. 

Velkominn í hópinn.



     
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan