| Sf. Gutt

Iago Aspas kominn heim aftur


Iago Aspas hefur lokið ferli sínum með Liverpool. Hann var lánsmaður á Spáni á nýliðinni leiktíð og er nú kominn þangað fyrir fullt og fast. Hann var lánsmaður hjá Sevilla og Liverpool seldi hann þangað. En svo gerðist nokkuð undarlegt og Sevilla, sem átti forkaupsrétt á Spánverjanum, seldi hann strax til Celta Vigo en Liverpool keypti hann einmitt þaðan sumarið 2013. Merkileg atburðarás. Iago er því kominn aftur heim!


Liverpool keypti Iago fyrir sjö milljónir sterlingspunda en Liverpool Echo segir að söluverð hans til Celta Vigo hafi verið þrjár og hálf milljón. Iago náði aldrei að láta að sér kveða hjá Liverpool og lék aðeins 15 leiki. Í þeim náði hann að skora eitt mark. Hann lék mjög vel á undirbúningstímabilinu fyrir sína einu leiktíð hjá Liverpool en svo var það ekki meira. Reyndar fékk hann ekki mikið að láta á sig reyna en það var greinilegt að hann var ekki nógu góður í topplið á Englandi. Iago skoraði ein 10 mörk fyrir Sevilla á nýliðinni leiktíð. Sevilla vann Evrópudeildina í vor en Iago var ekki í liðinu í úrslitaleiknum.


Iago segist ánægður með að vera kominn aftur heim til Celtra Vigo. ,,Bæði ég og félagið vorum sammála um að þetta væri góður tímapunktur til að koma til baka. Við lögðum mikið á okkur til að koma þessu í kring og ég er mjög þakklátur. Þegar ég kvaddi sagðist ég vera að fara til stærsta félags í heimi en nú er ég kominn til baka fyrr en nokkurn grunaði."

Hér má lesa allt það helsta um feril Iago Aspas á vefsíðu LFChistory.net.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan