| Grétar Magnússon

Joe Gomez til Liverpool

Í dag var tilkynnt að félagið hefði fest kaup á ungum enskum varnarmanni frá Charlton Athletic, Joe Gomez.

Gomez er 18 ára gamall og þykir mikið efni, hann getur spilað sem hægri bakvörður og miðvörður í vörninni. Hann spilaði 24 leiki fyrir Charlton í næst efstu deild Englands á síðasta tímabili og vakti athygli stærri liða. Hann á svo að baki þrjá leiki með U-19 ára landsliði Englendinga.

Gomez hafði þetta að segja eftir að vistaskiptin voru orðin að veruleika: ,,Þetta er draumur sem rætist. Í raun er þetta frekar óraunverulegt ennþá og ég er kannski ekki búinn að átta mig að fullu á þessu. En ég er virkilega spenntur og hlakka til að byrja að æfa."

,,Þetta er frábært félag með mikla sögu, eitthvað sem ég hef fylgst með frá unga aldri. Knattspyrnustíllinn og þeir gæða leikmenn sem eru hér er eitthvað sem ég hef viljað vera hluti af til að bæta mig og læra og til að spila góða knattspyrnu. Þetta var auðveld ákvörðun."

Gomez er fjórði leikmaðurinn sem kemur til liðsins í sumar og bætist hann í hóp þeirra James Milner, Danny Ings og Adam Bogdan.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan