| Sf. Gutt

Glen Johnson yfirgefur Liverpool


Staðfest var í dag að Glen Johnson hefði yfirgefið Liverpool. Samningur enska landsliðmannsins er runninn út og honum var ekki boðinn nýr samningur. Þetta hefur legið í loftinu lengst af nýliðinnar leiktíðar. Glen sagði sjálfur að hann gæti vel hugsað sér að spila áfram með Liverpool en það var ekki í boði. Ekki fyrir löngu þakkaði Glen sönnum stuðningsmönnum Liverpool, á vefsíðu sinni, fyrir stuðning við sig á þeim tíma sem hann lék fyrir hönd félagsins.


Liverpool keypti Glen frá Portsmouth sumarið 2009 fyrir háa upphæð. Hann hóf feril sinn hjá West Ham United en var líka um tíma lánsmaður hjá Millwall. Frá Hömrunum gekk Glen til liðs við Chelsea þar sem hann varð enskur meistari og Deildarbikarmeistari 2005. Glen fór svo til Portsmouth þar sem hann vann F.A. bikarinn 2008. Ári síðar keypti Liverpool hann fyrir um 17 milljónir punda.

 



Það gekk alltaf upp og ofan hjá Glen. Hann átti góða leiki en svo verri inni á milli. Margir töldu að framkvæmdastjórar Liverpool hefðu átt að nota hann sem kantmann frekar en bakvörð en enginn gerði það þó. Segja má að Glen hafi tryggt Liverpool Deildarbikarinn árið 2012 þegar Liverpool mætti Cardiff. Jafnt var 2:2 eftir framlengingu og vítakeppni tók við. Glen skoraði úr síðustu spyrnu Liverpool sem þó tryggði ekki sigur fyrr en Anthony Gerrard misnotaði næstu spyrnu Cardiff. Spyrna Glen réði því endanlega úrslitum. Ég var svo lánsamur að vera á úrslitaleiknum og leist ekki alveg á blikuna þegar Glen átti að skjóta en hann skoraði með öruggu skoti upp undir þaknetið.   


Það er óhætt að segja að Glen hafi aldrei orðið jafn góður hjá Liverpool og vonir stóðu til. Þegar hann var upp á sitt besta var hann talinn með bestu sóknarbakvörðum í Evrópu. Varnarleikurinn var þó aldrei jafn góður að flestra mati. Hann var jafnan í enska landsliðinu þar til nú á nýliðinni leiktíð en þá missti hann stöðu sína. Glen lék 54 landsleiki og skoraði eitt mark.


Glen lék slétta 200 leiki fyrir hönd Liverpool og skoraði níu mörk. Eini titill hans hjá Liverpool var, eins og áður segir, Deildarbikarinn leiktíðina 2011/12.

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Glen Johnson góðs gengis og þakkar fyrir framlag hans til félagsins.

Hér má lesa allt um feril Glen Johnson á LFChistory.net.

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan