| Sf. Gutt

Stefnir í brottför Raheem!


Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Raheem Sterling sé á förum frá Liverpool. Margt hefur verið gert og sagt í dag! Í fjölmiðlum birtist viðtal við Aidy Ward umboðsmann Raheem og þar sagði hann að það kæmi ekki til greina að hann skrifaði undir nýjan samning við Liverpool. Hann sagði að engu skipti hvaða upphæð Liverpool myndi bjóða honum. Hann nefndi tölur upp í 900.000 sterlingspund á viku. Forráðamenn Liverpool voru búnir að bjóða Raheem 100.000 pund í vetur. Hann sagðist bara gera það sem best væri fyrir Raheem og sér væri sama um allt annað.



Aidy bætti svo við að Jamie Carragher væri bara sauður eða eitthvað ennþá verra og allir vissu það. Hann hnýtti í Jamie vegna þess að Jamie gagnrýndi Raheem harðlega í sjónvarpsþætti á mánudagskvöldið. Hann sagði þá meðal annars að Raheem ætti að fá sér nýjan umboðsmann vegna þess að þessi væri ekki að gefa Raheem góð ráð. Aidy mun reyndar hafa látið til sín heyra eftir að þessar fréttir birtust og sagt að ekki væri rétt eftir honum haft.  

Nú síðdegis í dag var tilkynnt að forráðamenn Liverpool hefðu aflýst fundi með Aidy um samningamálin. Þessi fundur hafði verið settur á dagskrá fyrir nokkru. Ljóst er að forráðamenn Liverpool eru ekki ánægðir eins og vænta má. Margir sparkspekingar telja að Raheem og umboðsmaður hans séu búnir að mála sig út í horn. Stuðningsmenn Liverpool séu búnir að snúast gegn Raheem og til að bíta höfuðið af skömminni hafi Jamie Carragher verið móðgaður. Margir stuðningsmenn Liverpool vilja að Raheem verði settur út úr liðshópnum fyrir lokaleik Liverpool í Stoke á sunnudaginn. Við sjáum hvað setur!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan