| Sf. Gutt

Myndi skammast mín!


Jamie Carragher dró ekki úr því þegar hann ræddi málefni Raheem Sterling á Sky sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi. Hann sagðist myndu skammast sín í sporum Raheem þegar hann kæmi á æfingu í dag og það jafnvel þegar hann gengi inn á Melwood framhjá ritaranum í móttökunni. Jamie telur að Raheem hafi ekki staðið sig það vel á leiktíðinni að hann geti farið að setja fram meiri kröfur um kaup og kjör. Hann eigi að hafa sig hægan og einbeita sér að knattspyrnunni.


,,Strákurinn er frá Lundúnum og vill augljóslega fara aftur heim. Hugsanlega snýst þetta ekki um peninga, kannski snýst þetta um titla eða um að spila í Meistaradeildinni. Ef þetta snýst um titla þá gat Liverpool unnið einn slíkan í ár en liðið tapaði fyrir Aston Villa í undanúrslitum bikarsins. Hvar var Sterling í þeim leik? Það gefur þér enginn titla, þú verður að vinna fyrir þeim og spila vel í stórleikjunum." 

,,Hvað gerði Liverpool í Meistaradeildinni? Ekkert! Hvað gerði Sterling þar? Ekkert! Það er ekkert verra en svona hegðun sem hann hefur sýnt á þessu keppnistímabili. Hann á bara að þegja og einbeita sér að því að spila knattspyrnu."  

Jamie Carragher var mikið niðri fyrir þegar hann ræddi málefni Raheem Sterling og það var greinilegt að honum fannst þessi fyrrum félagi sinn hafa farið illa að ráði sínu í samskiptum sínum við Liverpool!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan