| Sf. Gutt

Af leikmannamálum

Leiktíðin er að renna sitt skeið. Steven Gerrard á eftir að spila einn leik í viðbót og það þarf að kaupa nýja leikmenn. Árangurinn á leiktíðinni kallar á það. Margir leikmenn hafa verið orðaðir við Liverpool síðustu vikur og mánuði. Sumir eru líklegri en aðrir til að koma en þessir hafa helst verið nefndir upp á síðkastið.


Sumir fjölmiðlar fullyrða að James Milner miðjumaður Manchester City komi til Liverpool í sumar. Hann hefur ekki átt fast sæti í liði City á leiktíðinni en er reyndur og öflugur. Sumir telja að búið sé að ganga frá vistaskiptum til Liverpool. 

Félagi hans hjá City Stevan Jovetic hefur oft verið orðaður við Liverpool. Rafael Benítez hafði mikinn áhuga á honum á sínum tíma og hann á að geta skorað mörk. Hann hefur ekki skorað mikið fyrir City enda aldrei náð að festa sig í sessi þar á bæ. Hermt er að Svartfellingurinn fái að fara frá City í sumar.


Danny Ings hjá Burnley var að því að sumir telja næstum farinn til Liverpool í janúar og kannski verða vistaskiptin að veruleika núna þegar sumarið er gengið í garð. Ýmsir hafa efasemdir um að hann sé nógu góður í topplið og hann skoraði aðeins einni sinni á lokakaflanum þegar það endaði með því að Burnley féll. 


Úkraínumaðurinn Yevhan Konoplyanka var líka næstum því kominn til Liverpool í janúar í hittifyrra. Hann spilar með Dnipro Dnipropetrovsk sem leikur til úrslita í Evrópudeildinni við Sevilla síðar í mánuðinum. Mögulegt er að hann fari frá Úkraínu í sumar og hann á að sjá eftir því að hafa ekki samið við Liverpool.   


Fyrir nokkrum vikum var Hollendingum ungi Memphis Depay talinn á leiðinni til Liverpool frá PSV Eindhoven. Ekkert varð af því og spilar með Manchester United á næstu leiktíð. Brendan Rodgers sagði að Liverpool hefði ekki reynt að fá hann en annað heyrðist úr herbúðum PSV sem varð hollenskur meistari á dögunum. 

Arturo Vidal er orðaður við Liverpool. Hann spilar með Ítalíumeisturum Juventus og er öflugur miðjumaður. Ólíklegt verður að telja að hann komi til Liverpool. 


Edinson Cavani er franskur meistari með Paris Saint Germain. Síðasta sumar var hann talinn líklegur til að koma til Liverpool en hann valdi að vera áfram í París. Kannski er möguleiki á að tala hann til að koma. Luis Suarez, landi hans, myndi að minnsta kosti mæla með Liverpool ef þeir félagar færu að spjalla um nýtt lið.    


Theo Walcott var orðaður við Liverpool þegar hann var ungliði hjá Southampton en síðan hefur hann lengi verið í herbúðum Arsenal. Í vetur var mikið talað um að hann gæti komið til Liverpool í sumar. 


Gareth Bale, fyrrum uppeldisfélagi Theo hjá Southampton, er auðvitað enn leikmaður Real Madrid en margir telja að hann komi aftur til Englands í sumar eftir erfitt gengi á þessari leiktíð. Varla er nú samt líklegt að hann komi til Liverpool enda dýr í verði og á fóðrum.


Dani Alves var í vetur orðaður við Liverpool. Brsilíumaðurinn er talinn á förum frá Barcelona. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er orðaður við Liverpool en hann var það áður en hann fór til Barca. 


Mörg félög hafa áhuga á Tékkanum Petr Cech en hann mun yfirgefa Chelsea í sumar. Mjög ólíklegt er þó að honum verði leyft að fara til annars liðs á Englandi. 

Hér eru aðeins nokkrir nefndir af mörgum en  allt er á huldu eins og vera ber á þessum árstíma. 



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan