| Sf. Gutt

Þakka ykkur kærlega fyrir allt!


Eftir síðasta leik Steven Gerrard á Anfield fóru leikmenn beggja liða af velli eins og gerist og gengur. Eftir nokkra stund komu leikmenn Liverpool aftur út á völlinn. Allir leikmenn voru í treyjum með nafninu Gerrard og númerinu 8 á bakinu. Áhorfendur voru enn á sínum stað á áhorfendastæðunum og meira að segja voru stuðningsmenn Crystal Palace enn á sínum stað. Þessari kveðjustundu ætlaði enginn að missa af! 

Steven Gerrard ávarpaði áhorfendur þegar út á völlinn var komið. Þetta var tilfinningaþrungin stund og fögur orð féllu. Hvernig var svo að spila í síðasta skipti á Anfield þar sem hann hóf feril sinn í nóvember 1998?   

,,Þetta var mjög skrýtið. Ég hef kviðið mikið fyrir þessari stundu og ástæðan er sú að ég á eftir að sakna alls hérna svo mikið. Ég hef notið hverrar mínútu hérna og þess vegna er ég miður mín yfir því að ég á aldrei eftir að spila fyrir framan þessa stuðningsmenn aftur."

En hvað skyldi hafa verið eftirminnilegasta atvikið sem hann upplifði á Anfield?

,,Það er erfitt að velja eitt atvik en þegar ég spilaði minn fyrsta leik fyrir hönd Liverpool Football Club rætist draumur. Allt eftir það var bara bónus fyrir mig."

,,Félagið er í góðum höndum. Við höfum frábæra eigendur og góðan framkvæmdastjóra. Hér er gríðarlega mikill og góður efniviður leikmanna. Ég er viss um að nýir leikmenn bætast í hópinn á næstu vikum."

Þetta voru lokaorð Steven Gerrard í ávarpi hans.

,,Mig langar að þakka öllum hjá félaginu sem hafa hjálpað mér síðustu seytján árin. Það er um svo marga að ræða að ég ætla ekki að nefna nein nöfn. Mig langar að þakka öllum liðsfélögum mínum og fyrrverandi leikmönnum. Þeir gerðu mig að þeim leikmanni sem ég er í dag."


,,Síðustu orðunum vil ég beina til þess fólks sem hefur mesta þýðingu. Þessir stuðningsmenn taka öllum fram sem ég hef haft reynslu af. Áður en tárin fara að brjótast fram langar mig að segja þetta. Ég hef spilað fyrir framan stuðningsmenn úti um allan heim og ég skal segja ykkur að þið eruð þeir bestu. Þakka ykkur kærlega fyrir allt og vegni ykkur sem best!"


Steven og leikmenn gengu hefðbundinn heiðurshring eftir ávarpið en venja er að gera slíkt eftir síðasta heimaleik. Hér var þó ekki nein venjuleg kveðjustund. Steven gekk svo að lokum til búningsherbergisins sem hann hefur svo oft búist til leiks í. Þetta var hans síðasta viðkoma í því sem leikmaður Liverpool Football Club!

Hér má horfa á Steven Gerrard og leikmenn Liverpool ganga heiðurshring. 

Hér syngja stuðningsmenn Liverpool You´ll Never Walk Alone fyrir leikinn. 

Hér ávarpar Steven áhorfendur eftir leikinn. 

Hér eru myndir af vefsíðu Liverpool Echo.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan