| Heimir Eyvindarson

Draumurinn úti

Liverpool gerði jafntefli við Englandsmeistara Chelsea. Þar með er nokkuð ljóst að liðið verður ekki með í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. 

Brendan Rodgers stillti upp óbreyttu liði frá sigurleiknum við QPR, sem þýddi fjögurra manna varnarlínu, Gerrard í DM og Lambert einn uppi á toppnum.  Eftir að okkar menn höfðu þurft að gera sér að góðu að standa upp á endann og hylla nýkrýnda Englandsmeistara með lófataki hófst leikurinn og manni fannst eitt augnablik að liðið ætlaði aðdeilis að láta bláliða finna fyrir sér. En eftir einungis 5 mínútna leik voru meistararnir komnir yfir og hjörtu okkar tóku nett aukaslag af vonbrigðum. Fabregas skrúfaði boltann fyrir og Terry hoppaði hærra en Lambert og skallaði boltann niður í markið. Staðan 1-0 á Brúnni. Reyndar má alveg færa rök fyrir því að Fabregas hefði átt að vera fokinn út af á þessum tímapunkti, eftir gróft brot á Raheem Sterling, en það er önnur saga.

Eftir daprar upphafsmínútur fór Liverpool þó smátt og smátt að ná vopnum sínum og þegar c.a. korter var liðið af leiknum var orðið ágætis líf í sóknarleik okkar manna. Coutinho, Lallana og Sterling létu allir finna fyrir sér á næstu mínútum, án þess að gera mjög mikinn usla. Á 28. mínútu komst Fabregas síðan einn í gegn en Mignolet sá við honum.

Rétt fyrir leikhlé náði Liverpool síðan að jafna leikinn. Henderson sendi boltann fyrir og Steven Gerrard skallaði boltann í netið, í sínum síðasta leik á Brúnni í bili. Staðan 1-1 í hálfleik. 

Í síðari hálfleik var Liverpool mun sterkara en í hinum fyrri og sóknarleikurinn var oft á tíðum ansi líflegur. Það vantaði hinsvegar, eins og svo oft áður, talsvert upp á að menn kláruðu færin sín og þegar einn besti markvörður heims er í búrinu þá verða menn einfaldlega að gera betur. 

Til að gera langa sögu stutta rann leiktíminn út án þess að Liverpool næði að knýja fram sigurinn sem við hefðum svo sannarlega þurft að landa. Það gerir það að verkum að vonin um sæti í Meistaradeild næsta vetur er svo gott sem úti. Afar fjarlægur tölfræðilegur möguleiki.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Lovren, Skrtel, Can, Gerrard (Lucas á 79. mín.), Henderson, Lallana (Ibe á 71. mín.), Coutinho, Sterling, Lambert (Sinclair á 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Allen, Toure og Moreno. 

Mark Liverpool: Gerrard á 44. mín.

Gul spjöld: Lambert, Skrtel og Lallana.

Chelsea: Courtois, Ivanovic, Zouma (Cahill á 35. mín.), Terry, Luiz, Willian, Mikel, Loftus-Cheek (Matic á 60. mín.), Fabregaz, Hazard, Remy (Cuadrado á 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Beeney, Ake, Drogba, Azpiliqueta. 

Mark Chelsea: Terry á 5. mín.

Gul spjöld: Fabregas, Luiz, Mikel og Ivanovic.

Maður leiksins: Ég ætla að velja Martin Skrtel að þessu sinni. Slóvakinn var allt í öllu í vörninni hjá Liverpool í dag og á hrós skilið fyrir vasklega framgöngu.

Brendan Rodgers: ,,Eins og svo oft áður í vetur vorum við seinir í gang, sem er mikil breyting frá síðustu leiktíð. En við komumst aftur inn í leikinn og vorum mjög góðir í síðari hálfleik. Því miður náðum við ekki að klára færin okkar nægilega vel og því fór sem fór."

Fróðleikur: 

-Mark Steven Gerrard er einungis 2. markið sem hann skorar gegn Chelsea. Í 40 leikjum. 

-Með markinu er Steven Gerrard kominn upp fyrir Raheem Sterling í markaskorun á þessari leiktíð. Fyrirliðinn er markahæstur okkar manna, með 12 mörk. Þetta var 8. mark hans í deildinni. 5 þeirra hafa komið úr víta- eða aukaspyrnum.

-Liverpool og Chelsea mættust fjórum sinnum á leiktíðinni og okkar mönnum tókst aldrei að vinna sigur.

-Hér má sjá myndir úr leiknum, af Liverpoolfc.com.

-Hér er viðtal við Brendan Rodgers, af sömu síðu.




 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan