| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Liverpool halda til höfuðborgarinnar í dag til að etja kappi við Chelsea sem tryggðu sér enska deildarmeistaratitilinn um síðustu helgi. Það er því að litlu að keppa fyrir bæði lið að þessu sinni.

Fjórða sætið er löngu farið úr greipum Liverpoolmanna þrátt fyrir að enn séu tölfræðilegir möguleikar á að ná því. Chelsea menn eru svo væntanlega kátir með uppskeru vetursins og hafa ekki að neinu að keppa lengur, það gæti því orðið frekar skrýtið andrúmsloft á Stamford Bridge þegar flautað verður til leiks kl. 15:00 að íslenskum tíma.

Fjórir leikmenn eru skráðir á meiðslalistann hjá Liverpool að þessu sinni, Daniel Sturridge og Jon Flanagan snúa ekki aftur fyrr en á næsta tímabili í fyrsta lagi en Mario Balotelli er sagður vera í leikmannahópnum þrátt fyrir að hafa misst af síðasta leik. Mamadou Sakho er svo enn meiddur en hann gæti verið klár um næstu helgi.

Hjá Chelsea eru þeir Oscar, Ramires og Diego Costa meiddir og óvíst hvort að einhver þeirra sé klár í leikinn í dag.

Stamford Bridge er völlur sem okkar menn hafa ekki verið sigursælir á í gegnum tíðina en þó hafa náðst sjaldgæfir sigurleikir þar á undanförnum árum en fyrsti sigurinn á Chelsea í Úrvalsdeildinni kom ekki fyrr en 7. janúar 2004 með 0-1 sigri þar sem Bruno Cheyrou skoraði markið. Næsti sigur leit ekki dagsins ljós fyrr en 26. október 2008 og aftur var það 0-1 sigur þar sem Xabi Alonso skoraði eina mark leiksins. Síðan þá hafa tveir sigrar unnist á þessum velli og eru sigurleikirnir því alls 4 af 22 viðureignum í Úrvalsdeild.

Síðast þegar liðin mættust á þessum velli unnu Chelsea 2-1, Martin Skrtel skoraði eina mark okkar manna en eftir þann leik voru margir með óbragð í munni þar sem dómgæslan hallaði þónokkuð á okkar menn í leiknum. En hvað um það, nú liggur í raun fyrir sú staðreynd að ætli okkar menn sér að eiga áfram örlítinn möguleika á að komast í topp fjóra í deildinni þá verður bara sigur að vinnast í dag. Þrátt fyrir, eins og áður sagði, að þessi völlur hafi reynst Liverpool erfiður í gegnum tíðina gefa síðustu sex leikir liðsins í deild þó allt aðra mynd, þrír leikir hafa unnist, tveir tapast og einn endað með jafntefli. Hafa ber þó í huga að Jose Mourinho tapar eiginlega ekki á heimavelli með lið sín og því verður við ramman reip að draga í dag.

En þar sem þetta tímabil hefur verið nánast ein hörmung þá er lítið annað eftir að halda í bjartsýnina og vona það besta. Ef Brendan Rodgers stillir upp mönnum í stöðum sem henta þeim hvað best þá er aldrei að vita nema að eitthvað gott gerist. Rickie Lambert má alveg halda sæti sínu frammi en hann stóð sig ágætlega í síðasta leik. Innkoma Lucas í liðið á ný er mikilvæg til að binda saman miðjuna og vernda vörnina, ætli liðið sér eitthvað að gera í leiknum af viti. Og auðvitað þarf svo að vera alvöru varnarmaður til að verjast Eden Hazard sem á oft á tíðum auðvelt með að komast framhjá mönnum og skapa hættu. Það er því miður ekki mjög gæfulegt að hugsa til þess að Glen Johnson eða miðjumaðurinn Emre Can verði í hægri bakverði til að verjast Hazard.

En sama hvað gestirnir munu reyna í dag verður svarið ávallt það sama, varnarmúr Chelsea mætir á sinn gamalkunna stað og þeir skora engu að síður sín mörk af gömlum vana á heimavelli. Niðurstaðan 2-0 heimasigur og áframhaldandi hörmungartímabil er ekki búið en þó sér nú loksins fyrir endan á því þar sem aðeins verða tveir leikir eftir þegar þessum er lokið.

Fróðleikur:

- Jordan Henderson og Simon Mignolet hafa spilað flesta leiki allra á tímabilinu, 51 leik í öllum keppnum.

- Þegar litið er á markahæstu menn er engin glæsileiki þar á ferðum. Steven Gerrard og Raheem Sterling hafa skorað 11 mörk í öllum keppnum til þessa.

- Báðir eru með 7 mörk í deildinni. Þess má þó geta að 5 af mörkum Gerrard í deildinni hafa komið úr víta- eða aukaspyrnum.

- Liverpool og Chelsea hafa mæst þrisvar sinnum áður á þessari leiktíð og hefur Liverpool ekki unnið eina viðureign.

- Chelsea unnu deildarleik liðanna á Anfield 1-2. Liðin mættust svo í undanúrslitum Deildarbikarsins, gerðu 1-1 jafntefli á Anfield og Chelsea unnu 1-0 eftir framlengingu á Stamford Bridge í seinni leik liðanna.

- Liverpool eru í 5. sæti deildarinnar með 61 stig eftir 35 umferðir.

- Chelsea eru á toppnum með 83 stig eftir 35 leiki.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan