| Elvar Guðmundsson

Hull á morgun


Liverpool mætir Hull City á KC Stadium annað kvöld kl. 18:45 í afar mikilvægum leik.  Mikilvægi leiksins jókst um nokkur %stig við 3-0 tap okkar helstu keppinauta um 4. sætið mikilvæga, Man. United í gær gegn nágrönnum okkar í Everton. Sigur á morgun myndi þýða 4 stiga mun og 12 stig eftir í pottinum margfræga. Erfiður leikur hins vegar framundan gegn Bruce og félögum enda sá stjóri þekktur fyrir allt annað en að tapa gegn okkur síðustu árin. Yfirleitt pirrandi leikir og get ég kvittað fast undir það, var á Anfield í fyrri leik liðanna í lok október, 0-0 í steindauðum leik fyrir utan síðustu 20 mínúturnar. Legg til að við byrjum á þeirri fyrstu í stað þeirrar 70. annað kvöld!

Sturridge ekki með á morgun frekar en fyrri daginn, og nú líklegra en hitt að hann missi af restinni af timabilinu. Einnig eru meiddir þeir Lucas og Sakho og Moreno fær síðbúið læknistékk rétt fyrir leik til að athuga hvort hann sé leikfær. Nokkrir meiddir hjá heimamönnum og líklegt að þeir Jelavic, Snodgrass og Curtis Davies verði allir fjarri góðu gamni.

Liðin mæst 19 sinnum í keppnisleik þar sem Liverpool er með 13 sigra, 5 hafa endað jafnir og Hull því aðeins náð í einn sigur gegn okkar mönnum. Sá leikur kom þó fyrir stuttu síðan, 1. desember 2013 er leikar enduðu 3-1 fyrir Hull.
Hull að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, eru aðeins stigi frá fallsæti og verða því erfiðir eins og öll lið í þeirri stöðu á þessu stigi tímabilsins. Maður gerir samt alltaf kröfu á sigur gegn þessum liðum en ekkert er gefið í þessari mögnuðu deild. 

Fræðin segja að maður eigi ekki að breyta vörn sem hélt hreinu en mér finndist freistandi að taka spænsku bakverðina okkar inn í þennan leik, Moreno ef heill og Manquillo hægra megin. Brendan gæti svo alveg aftur dottið í 3-4-3 kerfið með Can, Skrtel og vaxandi Lovren aftasta, Moreno og Ibe eða Markovic á köntunum sem ætti að gefa meiri sóknarþunga en í steingeldum síðasta leik gegn W.B.A. Hendo og Gerrard á miðjunni með Coutinho, Lallana sem átti fína innkomu á laugardaginn og Sterling sem fremstu þrjá. Kalla alltént eftir meiri ákafa, vilja og baráttu og þá vinnum við þennan leik og komum okkur aftur í þessa baráttu um Meistaradeildarsæti. Við erum Liverpool og missum aldrei trúna á meðan tölfræðilega mögulegt er að ná markmiðum okkar.

 Ætla að spá okkur sigri annað kvöld, 0-2, með mörkum frá Gerrard og Lallana. Koma svo, YNWA!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan