| Heimir Eyvindarson

Sérhannað sumarprógramm fyrir Sturridge

Daniel Sturridge hefur átt í miklum meiðslavandræðum í vetur. Nú hefur verið ákveðið að hann fylgi sérstöku þjálfunarprógrammi í sumar til þess að freista þess að koma honum í lag.

Þeir eru ekki margir leikirnir sem Sturridge hefur leikið með Liverpool í vetur. Hann hefur verið meira og minna meiddur og óhætt að segja að það hafi ekki verið til þess að hjálpa okkur að gleyma stjörnuframherjanum Suarez. Ýmislegt hefur verið reynt til þess að koma Sturridge í gang, hann hefur til að mynda dvalið lengi í Bandaríkjunum hjá sérfræðingum á vegum FSG en án teljandi árangurs.

Nú berast þær fregnir úr herbúðum Liverpool að verið sé að setja saman sérstakt endurhæfingarprógramm sem Sturridge á að fylgja næsta sumar. Hann mun m.a. fara í fjölda rannsókna þar sem reynt verður að komast að því hvað veldur síendurteknum meiðslum hans. 

Sturridge er framherji númer eitt hjá Liverpool og einn launahæsti leikmaður félagsins þannig að það er eðlilegt að félagið vilji leggja mikla vinnu í að koma honum í sæmilegt lag. Meiðslasaga hans hefur í raun verið með ólíkindum og það hefur gert liðinu afar erfitt fyrir að aðal framherji liðsins sé ekki með nema endrum og sinnum. 

Framherjavandræði Liverpool hafa auðvitað verið mögnuð á þessari leiktíð. Á síðustu leiktíð gátu Suarez og Sturridge varla hætt að skora, en nú er sá fyrrnefndi horfinn á braut, Sturridge meira og minna meiddur og öðrum framherjum liðsins virðist fyrirmunað að koma boltanum í netið. Það hlýtur þessvegna að vera forgangsatriði hjá félaginu að kaupa topp framherja. Ekki er hægt að treysta á Sturridge, þótt við vonum auðvitað að meðferðin í sumar skili sér, og Divock Origi sem kemur frá Lille í sumar er ekki orðinn stjörnuframherji ennþá a.m.k. Væntanlega verða Balotelli, Lambert og Borini allir látnir fara í sumar og þá er ekki mikið eftir af framherjum.

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan