| Sf. Gutt

Þrír ætla að vera lengur!


Í dag er hermt í fjölmiðlum að þrír leikmenn Liverpool ætli sér að vera áfram hjá félaginu. Einn staðfestir að hann ætli að vera og hinir tveir eru taldir líklegir. 

Martin Skrtel staðfestir í fjölmiðlum í dag að hann sé alls ekki á þeim buxunum að yfirgefa Liverpool og ætli sér að vera áfram hjá félaginu. Hann hefur af og til í vetur verið orðaður við Napólí þar sem Rafael Benítez er framkvæmdastjóri. Nú þarf sem sagt ekki lengur að hafa áhyggjur af því að Martin fari en hann er búinn að vera besti varnarmaður Liverpool á leiktíðinni. 


Mjög líklegt er talið að Jordan Henderson muni á allra næstu dögum skrifa undir nýjan samning við Liverpool. Jordan sem nú er varafyrirliði Liverpool hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning og farið er að styttast í að núgildandi renni sitt skeið. Hermt er að Manchester City hafi mikinn hug á að fá Jordan í sínar raðir í sumar en samkvæmt því sem nú er helst talið á ekki að vera nein hætta á að hann fari.


Jordan Ibe hefur vakið mikla athygli í þeim fáu leikjum sem hann hefur spilað með Liverpool núna eftir áramótin. Margir telja hann ekki minna efni en Raheem Sterling. Jordan var í láni hjá Birmingham City á síðustu leiktíð og hjá Derby fram að síðustu áramótum. Forráðamenn Liverpool ætla nú að bjóða honum betri samning en hann er á og búist er við því að hann skrifi fljótlega undir.

Daniel Sturridge og Philippe Coutinho hafa skrifað undir nýja samninga á síðustu mánuðum og nú er bara spurning hvað Raheem Sterling gerir!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan