| Heimir Eyvindarson

Fréttir af ungliðum

Það sást vel í góðgerðarleiknum á sunnudaginn að nóg er til af ungum og efnilegum leikmönnum í herbúðum Liverpool. Þeir hafa óvenju margir fengið að sýna sig fyrir Brendan Rodgers síðustu daga.

Meðan á landsleikjahléinu stendur og margir aðalliðsmenn eru í burtu með landsliðum sínum hafa enn fleiri ungliðar en venjulega verið með á æfingum aðalliðsins á Melwood. Einn þeirra er hinn 18 ára Spánverji Sergi Canos, sem hefur verið að gera það gott með U21 liði Liverpool að undanförnu. Skoraði meðal annars mark gegn Benfica í 8 liða úrslitum UEFA Youth League á dögunum, en portúgalska liðið þykir eitt það allra besta í heimnum í sínum aldursflokki - og sló Liverpool raunar að lokum út í keppninni.

„Það er frábært að fá tækifæri til þess að æfa með aðalliðinu. Við sem fáum sjénsinn leggjum okkur alla fram um að sýna okkur fyrir stjóranum og þjálfarateyminu og reyna að sannfæra þá um að við séum tilbúnir til þess að stíga næsta skref. Það er okkur mikil hvatning að fá að taka þátt í þessum æfingum", segir Canos.  

Þrátt fyrir að Liverpool hafi lánað marga ungliða til annarra liða á þessari leiktíð er greinilega nóg til af öflugum strákum því U21 liðið er sem stendur í öðru sæti í U21 deildinni ensku, einu stigi á eftir Manchester United. 

Einn af drengjunum í U21 liðinu, Ryan Kent, skrifaði undir langtímasamning við Liverpool í dag. Hann sagði sjálfur frá tímamótunum á Twitter. Kent er frá Oldham en hefur verið í herbúðum Liverpool frá 7 ára aldri. Hann þykir mikið efni og hefur leikið talsvert með yngri landsliðum Englendinga. Hann hefur glímt við bakmeiðsli að undanförnu, en er að komast á ferðina aftur.

Annar ungliði og heldur þekktari en Kent og Canos, Samed Yesil, er einnig að komast á ferðina eftir meiðsli, að sögn Michael Beale stjóra U21 liðsins. Yesil er orðinn 21 árs gamall, en hefur ekki enn sprungið út hjá Liverpool. Miklar væntingar eru gerðar til Yesil sem kom til Liverpool frá Bayer Leverkusen árið 2012 fyrir um eina milljón sterlingspunda að því er talið er. Yesil hefur leikið með flestum yngri landsliðum Þýskalands, en hefur verið óheppinn með meiðsli og ekki enn náð því flugi sem ætlast er til af honum. En hann á vonandi eftir að blómstra í rauðu treyjunni fyrr en síðar.

Jafnaldri Yesil, Ástralinn Brad Smith, sem hefur aðeins verið að banka á dyrnar hjá aðalliðinu stóð í ströngu fyrr í dag þegar hann og félagar hans í U23 ára landsliði Ástralíu, eða The Olyroos eins og heimamenn kalla liðið jafnan, tryggðu sér sæti í úrslitum Asíukeppni U23 ára landsliða sem fram fer í Qatar í janúar.  

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan