| Sf. Gutt

Jafnt í Stjörnuleiknum!


Það var mikið um dýrðir á Anfield í dag þegar Stjörnuleikur þeirra Steven Gerrard og Jamie Carragher fór fram. Uppselt var á leikinn og allir fóru kátir heim eftir 2:2 jafntefli.

Eins og tilkynnt var fyrir nokkrum vikum gengust þeir Steven Gerrard og Jamie Carragher fyrir því að haldinn yrði góðgerðarleikur á Anfield til að safna peningum fyrir Liverpool Foundation sem er styrktarsjóður Liverpool Football Club. Þeir félagar hóuðu í fjölda fyrrum leikmanna Liverpool, leikmanna frá Liverpool og nokkra ungliða. Stærstu stjörnur leiksins, fyrir utan Steven  og Jamie, þeir Luis Suarez og Fernandno Torres. Einnig voru þeir Xabi Alonso, Jose Reina og Luis Garcia mikið í umfjöllun fyrir leikinn. Ekki má gleyma því að Thierry Henry, John Terry, Didier Drogba, Gael Clichy og Ashley Williams sem ekki eiga nein tengsl við Liverpool tóku boði um að spila. Brendan Rodgers stýrði liðinu sem Steven valdi en Roy Evans liði Jamie.  


Lið Jamie sem lék í hvítum búningum byrjaði betur og Mario Baletello skoraði með góðu skoti utan vítateigs eftir níu mínútur. Brad Jones kom engum vörnum við. Á 22. mínútu sendi Mario stórgóða sengingu inn fyrir á Didier Drogba sem lék laglega á Brad sem kom á móti honum og skoraði örugglega. Ekki í fyrsta sinn sem Didier skorar þegar Liverpool er annars vegar!


Steven kom sínu liði á blað þegar átta mínútur voru til hálfleiks. Hann sendi þá á Jerome Sinclair sem fékk víti eftir að Martin Kelly braut á honum. Steven skoraði að sjálfsögðu og átti Jose Reina ekki möguleika. Margir höfðu sýnt góð tilþrif í hálfleiknum og þótti Thierry Henry fara á kostum.  


Að sjálfsögðu var mikið um skiptingar og það var mikið fagnað þegar þeir Luis Suarez og Fernando Torres birtust eftir leikhlé til að fara í sóknina hjá liðinu hans Steven. Bæði liði hefðu getað skorað en aðeins eitt mark bættist við og kom það þegar stundarfjórðungur var eftir. Jamie Carragher braut þá á Luis Suarez og dæmt var víti. Steven bauð þeim Fernando og Luis upp á að taka vítið en þeir tóku ekki tilboðinu! Fyrirliðinn tók vítið þá sjálfur fyrir framan Kop stúkuna og skoraði af öryggi framhjá Ungverjanum Peter Gulacsi. Steven fór litlu síðar af velli og var honum gríðarlega vel fagnað. Þegar upp var staðið lauk leiknum með 2:2 jafntefli og var það upplögð niðurstaða. 

Eftir leikinn gengu leikmenn heiðurshring og var gömlum hetjum og öðrum vel fagnað. Stuðningsmenn Liverpool fengu þarna tækifæri á að hylla og kveðja goðsagnir á borð við Luis Suarez, Fernando Torres, Xabi Alonso og Jose Reina. Mestu skipti þó að mikið fé safnaðist til góðra málefna en uppselt var á Anfield! 


Lið Steven Gerrard: Jones (Vigouroux), Johnson, A Gerrard (Dann), Terry (Williams), Riise (Warnock), S Gerrard (Teixeira), Alonso (Teixeira (Spearing)), Nolan (Adam), Babel, Sinclair (Torres), Henry (Suarez).

Lið Jamie Carragher: Reina (Gulacsi), Flanagan (Moreno), Kelly, Carragher, Arbeloa (Clichy), Lucas (Maguire), Shelvey (Noone), Downing (Borini), Kewell (Bellamy), Drogba (Garcia), Balotelli (Brannagan). 

Maður leiksins í fyrri hálfleik að mati Liverpool Echo:
Mario Balotelli. 

Maður leiksins í síðari hálfleik að mati Liverpool Echo: Steven Gerrard.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.903.

Hér eru myndir og umfjöllun um leikinn af vefsíðu Liverpool Echo.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan