| Heimir Eyvindarson

Rodgers hrósar Coutinho í hástert

Brendan Rodgers fer afar fögrum orðum um Philippe Coutinho eftir glæsimarkið sem Brasilíumaðurinn magnaði skoraði gegn Manchester City í gær. 

,,Það að skora svona mark á móti Joe Hart, sem ég tel vera mjög góðan markvörð, úr svo þröngu færi og af svona miklum krafti ber vitni um ótrúlega góða skottækni. Markið hjá Jordan Henderson var frábært líka", segir Rodgers.

,,Það má ekki gleyma því að Philippe er aðeins 22 ára og er tiltölulega nýkominn til okkar. Hann kom hingað aðeins tvítugur að aldri og er enn að aðlagast nýju landi og öðruvísi fótbolta. Þrátt fyrir það er hann á góðri leið með að verða stjarna í Úrvalsdeildinni. Það er frábært að sjá að nú er hann farinn að skora mörk með reglulegu millibili. Hann er gríðarlegt efni."

,,Hann er nú þegar orðinn frábær knattspyrnumaður, en hann á eftir að verða talsvert betri. Hann er ótrúlega vinnusamur og auðmjúkur. Hann leggur mikið á sig á hverri einustu æfingu og er alltaf tilbúinn í aukaæfingar. Hann vill svo sannarlega verða betri leikmaður. Honum líður vel hjá Liverpool þar sem hann er í miklum metum hjá samherjum sínum og stuðningsmönnum. Þessvegna skrifaði hann undir nýjan samning."

,,Við náðum í hann fyrir tveimur árum og ég sagði honum þá að við vildum spila góðan fótbolta. Við höfum staðið við það og hann hefur á köflum blómstrað. Hann hefur alltaf haft mjög gott auga fyrir samspili og við höfum séð margar gullsendingar frá honum. Hann er einstaklega óeigingjarn leikmaður, en nú hafa glæsimörkin bæst við og þá er hann orðinn illviðráðanlegur! Hann hefur æft skotin sérstaklega og við höfum hvatt hann til þess að skjóta meira."

,,Það er frábært að vinna með honum. Hann er alltaf til í að læra og alltaf til í að leggja á sig vinnu til þess að ná árangri. Hann hefur mjög gott vald á boltanum og góðar hreyfingar. Hann getur athafnað sig á ótrúlega litlu svæði og þegar hann er fyrir utan teiginn þá þarf hann oft ekki mikið til þess að koma sér í ákjósanlegt skotfæri, hann er það magnaður í hreyfingum. Við munum örugglega hvetja hann til þess að skjóta meira, það er alveg greinilegt að hann hefur náð góðum tökum á skottækninni líka."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan