| Heimir Eyvindarson

Sturridge með 33 mörk í 50 deildarleikjum

Daniel Sturridge lék sinn 50. deildarleik fyrir Liverpool á sunnudaginn. Í þessum 50 leikjum hefur hann skorað 33 mörk, sem er sami árangur og Fernando Torres náði á sínum tíma.

Daniel Sturridge gekk til liðs við Liverpool í janúar 2013 og byrjaði með látum. Hann skoraði mark í þremur fyrstu leikjum sínum fyrir félagið og jafnaði þar með met Ray Kennedy frá árinu 1974. Hann og Luis Suarez náðu gríðarlega vel saman í framlínu Liverpool og mynduðu hinn ógnarsterkar SAS dúett, eins og frægt varð. Vandræðagangur Suarez og þrálát meiðsli Sturridge gerðu það reyndar að verkum að þessir frábæru framherjar spiluðu allt of fáa leiki saman.

Þrátt fyrir það er Sturridge nú kominn með 33 mörk í sínum fyrstu 50 deildarleikjum fyrir Liverpool. Eins og áður segir er það sama tölfræði og Fernando Torres gat státað af á sínum tíma. Þeir félagar eru jafnir í 5.-6. sæti á listanum yfir þá Liverpool leikmenn sem hafa skorað mest í fyrstu 50 leikjum sínum.

Kapparnir sem eru fyrir ofan þá á listanum léku flestir með Liverpool í kringum þar síðustu aldamót og einn um miðja síðustu öld. Þessir kappar skoruðu aukinheldur flest sín mörk í 2. deild, þannig að samanburðurinn er ekki ýkja marktækur.

Af yngri mönnum á listanum er John Aldridge næstur þeim félögum, en hann skoraði 31 mark í 50 fyrstu leikjunum, einu meira en Robbie Fowler. Kenny Dalglish og Michael Owen eru jafnir með 27 mörk í 15.-16. sæti á listanum. Þá má einnig geta þess að Luis Suarez skoraði 20 mörk í sínum fyrstu 50 leikjum fyrir félagið, einu minna en Ian Rush. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan