| Sf. Gutt

Mario er vítaskytta númer tvö


Stóra vítaskyttumálið hefur verið leyst! Mikið var gert úr því í fjölmiðlum þegar Mario Balotelli ,,frekjaðist" til að taka vítið mikilvæga á móti Besiktas. Jordan Henderson ætlaði sér að taka vítið og Daniel Sturridge var líka áhugasamur. Svo fór að Mario hafði sitt fram og skoraði af miklu öryggi. Sem betur fer!

Mörgum þótti Mario ekki hafa farið rétt að. Aðrir töldu að Jordan hefði farið rétt. Svo voru enn aðrir sem töldu báða hafa farið rétt að. Sem sagt að Jordan skyldi leyfa Mario að taka vítið. Steven Gerrard, sem var sparkspekingur í sjónvarpslýsingu, sagði það sína skoðun að Jordan hefði átt að taka spyrnuna og svo mætti lengi áfram halda.

Því má bæta við inn í umræðuna að Mario hefur tekið í kringum 30 víti í kappleikjum á ferli sínum og hefur, ef ég veit rétt, aðeins mistekist tvisvar að skora. Jordan Henderson hefur aldrei tekið víti í leik með Liverpool. Daniel Sturridge hefur tekið tvö víti fyrir Liverpool og skorað úr öðru. Fyrir leik virðist hafa verið ákveðið að Jordan væri fyrsta vítaskytta en Mario var kominn inn á þegar vítið var dæmt og miðað við vítareynslu þessara má segja að það hafi ekki verið spurning um að Ítalinn hefði átt að taka spyrnuna sem sannarlega var mikilvæg.


Brendan Rodgers hefur nú tekið af öll tvímæli og hann sagði opinberlega fyrir helgina að Mario Balotelli væri vítaskytta Liverpool númer tvö á eftir Steven Gerrard. Væri hvorugur þeirra inni á vellinum væru aðrir tilkallaðir og þá fyrstur Jordan Henderson og eins væri Rickie Lambert mjög örugg skytta. Þar með ætti stóra vítaspyrnumálið að vera úr sögunni!   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan