| Heimir Eyvindarson

Góður sigur og frábær endurkoma Sturridge

Liverpool tók á móti West Ham í dag á Anfield. Lokatölur urðu 2-0 í leik sem líklega verður helst minnst fyrir magnaða endurkomu Daniel Sturridge.

Brendan Rodgers stillti upp næstum því óbreyttu liði frá viðureigninni við Chelsea á þriðjudagskvöld. Eina breytingin var sú að Adam Lallana kom inn fyrir Steven Gerrard, sem var ekki einu sinni í hóp í dag og verður því að bíða eitthvað aðeins eftir því  að spila sinn 700. leik fyrir félagið. Mamadou Sakho,sem flestir áttu von á að yrði tæplega leikfær í dag vegna meiðslanna sem hann hlaut í leiknum gegn Chelsea, var í byrjunarliðinu og stóru gleðitíðindin voru svo auðvitað að Daniel Sturridge sem hefur verið frá vegna meiðsla síðan í ágúst var loksins mættur til leiks. Sturridge byrjaði leikinn á bekknum ásamt m.a. Lambert og Borini. Balotelli, Lovren og Manquillo voru ekki í hóp í dag.

Strax á 4. mínútu lét Andy Carroll fyrrverandi leikmaður Liverpool til sín taka þegar hann gaf Emre Can ljótt olnbogaskot, að vísu líklega óviljandi, þegar þeir stukku saman upp í skallabolta. Tveimur mínútum síðar komust Lallana og Markovic í færi eftir góða rispu Sterling, en báðir fóru illa að ráði sínu.

Á 19. mínútu átti Sterling aftur góða rispu sem endaði með því að hann renndi boltanum á Henderson sem var í ágætu skotfæri. Skot Henderson var hinsvegar laflaust, beint í fangið á Adrían í marki West Ham þannig að ekkert kom út úr þessari ágætu skyndisókn okkar manna.

Á 24. mínútu endaði frábært samspil Sterling og Coutinho með skoti þess síðarnefnda úr þröngri stöðu, sem Adrían varði. Heilmikið líf í sóknarleik Liverpool á þessum tímapunkti og okkar menn til alls líklegir.

Á 32. mínútu átti Andy Carroll annað gott olnbogaskot, að þessu sinni í smettið á Markovic, en Andre Marriner dómari sá enga ástæðu til að gera neitt í því. Mínútu síðar átti Carroll svo meinlausan skalla að marki Liverpool, sem Mignolet varði auðveldlega.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks var mikið fjör á vellinum. Fyrst féll Sterling í teignum eftir viðskipti sín við varnarmenn West Ham, en Marriner lét flautuna vera. James Collins sendi út úr teignum á Stewart Downing sem sendi boltann rakleitt fyrir fætur Lazar Markovic sem skaut framhjá marki gestanna úr dauðafæri. Þarna hefði Serbinn svo sannarlega átt að gera betur. 

Staðan markalaus í hálfleik, en Liverpool klárlega betra liðið.

Strax í upphafi síðari hálfleiks var Sterling enn og aftur á ferðinni. Hann fór illa með varnarmenn West Ham og sendi góða sendingu á fjærstöng þar sem Moreno var aleinn í ágætri stöðu, en afgreiðsla Spánverjans var alveg vonlaus. Tveimur mínútum síðar átti Sterling sjálfur síðan heldur slappt skot frá vítateigshorni, töluvert langt framhjá marki gestanna.

Aðeins mínútu uppskar Sterling svo loks laun erfiðis síns. Þá átti Coutinho frábæra sendingu inn fyrir vörn West Ham á Sterling sem renndi boltanum laglega fram hjá Adrian og í netið. Staðan 1-0 á Anfield eftir rétt rúmlega 50 mínútna leik.

Eftir markið róaðist leikurinn aðeins niður og næstu mínúturnar var lítið að gerast í rokinu í Liverpool. En á 68. mínútu höfðu stuðningsmenn Liverpool ríka ástæðu til þess að fagna, en þá kom Daniel Sturridge inná eftir 5 mánaða fjarveru. 

Hafi stuðningsmen Liverpool fagnað þegar Sturridge kom inn á þá var það hreint ekki neitt í samanburði við fögnuðinn sem braust út á pöllunum á 80. mínútu, en þá skoraði Sturridge flott mark eftir góðan undirbúning Coutinho. Mark Sturridge var virkilega laglegt,hnitmiðað skot frá markteigshorni með hægri, neðst í nærhornið, án þess að Adrian kæmi nokkrum vörnum við. Það ætlaði allt um koll að keyra á Anfield þegar boltinn lá í netinu. Staðan orðin 2-0 og sigurinn nánast í höfn.

Þremur mínútum síðar var Sturridge nálægt því að bæta öðru marki við þegar hann átti ágæta tilraun eftir að Adrían hafði varið fínt skot frá Ibe, sem var nýkominn inn á, en boltinn fór rétt framhjá markinu.

Í uppbótartíma var mark réttilega dæmt af West Ham vegna brots á Mignolet í markteignum. Lokatölur í rokinu á Anfield 2-0 fyrir Liverpool í ánægjulegum leik af hálfu okkar manna.


Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Lucas, Henderson, Coutinho (Ibe á 81. mín.), Lallana, Sterling, Markovic (Sturridge á 68. mín.), Moreno, Ónotaðir varamenn: Ward, Borini, Johnson, Lambert.

Mörk Liverpool: Raheem Sterling á 51. mín. og Daniel Sturridge á 80. mín. 

Gult spjald: Raheem Sterling.

West Ham: Adrían, O´Brien, Reid, Collins (Demel á 73. mín.), Tomkins, Song, Amalfitano (Noble á 55. mín.), Downing, Cresswell, Valencia, Carroll (C.Cole á 63. mín.). Ónotaðir varamenn: Jaaskelainen, Poyet, Jarvis, Oxford.

Gult spjald: Andy Carroll.  

Áhorfendur á Anfield Road: 44,653.

Maður leiksins: Það er pínulítið erfitt að velja á milli nokkurra leikmanna í dag. Vörnin var þétt, sérstaklega Sakho sem var hreint frábær. Sterling og Coutinho voru báðir stórhættulegir í dag. Coutinho átti tvær stoðsendingar og Sterling skoraði glæsilegt mark og var sífellt að koma varnarmönnum West Ham í vandræði. Ég leyfi mér að velja Sterling að þessu sinni. Annars á liðið allt hrós skilið fyrir góða frammistöðu.

Brendan Rodgers: „Ég var mjög ánægður með frammistöðu liðsins í dag. Við vorum þéttir varnarlega, varnarlínan og Mignolet í markinu sýndu mikið öryggi. Það var gott jafnvægi á miðjunni þar sem Henderson og Lucas réðu ríkjum og við vorum hættulegir fram á við með Coutinho, Lallana og Sterling fremsta í flokki. Svo var auðvitað frábært að sjá Daniel skora. Hann er frábær leikmaður og það er okkur mikils virði að fá hann til baka."

Fróðleikur:

-Raheem Sterling skoraði áttunda markið sitt á leiktíðinni. 

-Daniel Sturridge skoraði í annað sinn. 

-Þetta var fyrsti leikur Daniel Sturridge í Liverpool búningnum síðan 31. ágúst, þegar Liverpool lagði Tottenham örugglega 0-3 á White Hart Lane. 

-West Ham hefur ekki unnið leik á Anfield síðan 1963. Tapað 31 sinni og gert 11 jafntefli.

-Þess má geta að í september 1963, þegar West ham lagði Liverpool síðast að velli á Anfield, var She loves you með Bítlunum vinsælasta lagið á Bretlandseyjum. 

-Tveir fyrrverandi leikmenn Liverpool, Stewart Downing og Andy Carroll, mættu til leiks á Anfield í dag í búningi West Ham.  Þá skartaði Liverpool einum fyrrverandi West Ham manni, en Glen Johnson hóf feril sinn hjá Lundúnaliðinu árið 2002. Johnson varð reyndar að gera sér það að góðu að sitja á bekknum allan tímann.

-Hér má sjá myndir úr leiknum, af Liverpoolfc.com

-Hér má sjá viðtal við Brendan Rodgers, sem tekið var strax eftir leikinn. Einnig af Liverpoolfc.com.

-Hér er viðtal, af vefsíðu BBC, sem tekið var við Brendan eftir leik.   

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Liverpool Echo.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan