| Sf. Gutt

Var búinn að ákveða sig!


Raheem Sterling var harðlega gagnrýndur fyrir að fara illa með dauðafæri í leik Liverpool og Manchester United um daginn. Síðan hefur hann skorað þrjú mörk og þar af dýrmætt sigurmark í Burnley á öðrum degi jóla. Eftir leik sagðist hann, í viðtali við Liverpoolfc.com, hafa verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera ef hann kæmist í svona færi sem hann skoraði svo úr.

,,Ég sagði fyrir leikinn að ef ég kæmist einn í gegn þá myndi ég leika á markmanninn og ég gerði það. Ég var búinn að einsetja mér hvað ég ætlaði að gera. Þetta var frábær stungusending frá Philippe og ég var bara ánægður með að ég náði að klára færið og ná þremur stigum fyrir liðið. Það er alltaf gott að ná þremur stigum á útivöllum. Það er mjög erfitt að ná stigum hérna í Burnley. Þeir börðust eins og ljón og fengu nokkur færi en við vörðumst vel á köflum og náum markinu sem gaf okkur verðskuldaðan sigur."


Raheem er núna orðinn markahæsti leikmaður Liverpool með sex mörk. Þó það sé nú ekki hátt markaskor hjá markahæsta manni þegar einn leikur er eftir af árinu þá skal ekki dregið úr því að Raheem hefur staðið sig frábærlega á leiktíðinni og þá sérstaklega ef miðað er við aldur hans. Raheem er nýorðinn tvítugur og hann hefur verið langhættulegasti framlínumaður Liverpool á leiktíðinni.


Við bætist að enginn útileikmaður í allri deildinni hefur spilað jafn margar mínútur og hann. Hann sýndi líka skapstyrk sinn eftir vonbrigðin og gagnrýnina sem hann fékk eftir leikinn á Old Trafford með því að skora þrjú mörk í síðustu þremur leikjum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan