| Sf. Gutt

Jafnt gegn Skyttunum á Anfield

Síðbúið jöfnunarmark færði Liverpool 2:2 jafntefli gegn Arsenal á Anfield í kvöld en það var það minnsta sem liðið verðskuldaði eftir að hafa verið betra liðið lengst af.

Þrátt fyrir góðan leik stendur eftir að illa gengur að vinna í heimavíginu en þar hefur ekki unnist nema einn leikur frá því í október. Á hinn bóginn þá hefur Liverpool ekki tapað nema einum leik af síðustu átta. 

Liverpool hóf leikinn af miklum krafti eftir að mannfjöldinn hafði sungið þjóðsönginn af miklum þunga og krafti. Strax í byrjun sveif boltinn framhjá vinklinum á marki Arsenal eftir góða aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Segja má að Liverpool hafi sótt og sótt allan hálfleikinn og liðið lék virkilega vel á köflum. Það var á hinn bóginn fátt um færi og illa gekk, eins og svo oft áður, að skapa opin færi. Á 30. mínútu tók Philippe Coutinho rispu fram völlinn en skot hans fór beint á Wojciech Szczesny í markinu. Fimm mínútum seinna komst Lazar Markovic inn í vítateiginn og upp að markteig en Wojciech kom vel út á móti og varði.

Hinu megin á vellinum var Olivier Giroud við að sleppa í gegn en Brad Jones var vel vakandi, kom út fyrir teiginn og bjargaði. Lazar, sem var mjög góður, ógnaði marki Arsenal rétt á eftir eftir gott spil en skot hans frá vítateig fór yfir. Það leit allt út fyrir markaleysi í hálfleik en á síðustu mínútu hálfleiksins skoraði Liverpool. Jordan Henderson vann boltann rétt utan vítateigs Arsenal. Hann kom boltanum á Philippe Coutinho sem lék á einn varnarmann og skoraði svo með skoti í stöng og inn rétt við vítateiginn. Glæsilegt mark og brasilíski strákurinn fagnaði ógurlega enda búinn að eiga erfitt uppdráttar á leiktíðinni. Í þessum leik sýndi hann þó sitt rétta andlit.

En Liverpool á erfitt með að halda hreinu og Arsenal skoraði úr fyrstu marktilraun sinni. Ekki í fyrsta sinn sem mótherji Liverpool gerir það á leiktíðinni. Arsenal fékk aukaspyrnu hægra megin eftir að Alexis Sanchez lét sig detta. Varnarmenn Liverpool náðu ekki að skalla frá og Mathieu Debuchy skallaði í mark. Gott ef boltinn fór ekki í Martin Skrtel á leiðinni. Hroðalega gremjulegt því Liverpool hafði spilað stórvel á köflum og það var þvert gegn öllu að Arsenal skyldi ná að jafna.

Snemma í síðari hálfleik fékk Martin spark á höfuðið eftir baráttu við Olivier og það tók langan tíma að binda um sárið. Sá tími átti eftir að koma sér vel þegar upp var staðið! Liverpool var sem fyrr mun sterkari aðilinn í leiknum en það gekk illa að nýta yfirburðina. 

Á 62. mínútu tók Raheem Sterling góða rispu og slapp í gegn. Hann komst framhjá markmanninum en var kominn utarlega og gat ekki skotið á markið. Þess í stað sendi hann fyrir á Steven sem henti sér fram en skallinn fór yfir. Kannski eins gott að ekki varð mark því Raheem handlék knöttinn í upphlaupinu. Þremur mínútum seinna var Arsenal komið yfir með öðru markskoti sínu í leiknum! Gott samspil endaði með þríhyrningsspili og Olivier Giroud skoraði við markteiginn. Enn og aftur var illa dekkað í vörninni og því fór sem fór.

Þrátt fyrir að vera komnir ósanngjarnt undir gáfu leikmenn Liverpool ekki upp og hófu stórsókn sem stóð til leiksloka. Þegar stundarfjórðungur var eftir átti Lucas Leiva, sem spilaði mjög vel, gott skot við vítateiginn sem fór hárfínt framhjá. Philippe komst svo í góða skotstöðu við vítateiginn en vörnin varði skot hans. Brasilíumaðurinn hefði átt að geta náð betra skoti þarna.

Sókn Liverpool þyngdist jafnt og þétt. Raheem tók góðan sprett fram vinstra megin þegar þrjár mínútur voru eftir og átti góða fyrirgjöf á varamanninn Fabio Borini sem náði góðum skalla sem Wojciech sló yfir. Níu mínútum var bætt við vegna meiðsla Martin og það átti mikið eftir að gerast á þeim tíma.

Raheem og Steven áttu góð skot en Wojciech varði bæði niðri í horninu. Mínútu fyrir leikslok reiddist Fabio ógurlega þegar hann vildi réttilega fá innkast, grýtti boltanum í jörðina og var bókaður. Um tveimur mínútum seinna fór hann með sólann í brjóstkassan á einum leikmanna Arsenal og fékk annað gult spjald og þar með var hann fokinn af velli rétt rúmum 15 mínútum eftir að hann kom til leiks. Ótrúlegt og í annað sinn í fjórum leikjum sem varamaður Liverpool er rekinn af velli! 

Það var komið fram á sjöundu mínútu viðbótartímans þegar sókn Liverpool bar loks sanngjarnan árangur. Adam Lallana tók horn frá hægri og hann hitti beint á Martin Skrtel sem skallaði í markið fyrir framan The Kop. Vel gert hjá Martin en vörn Arsenal var alveg sofandi. Ekki ólíkt vörn Liverpool. Arsenal átti svo síðasta orðið þegar Santi Cazorla átti fast skot sem Brad varði vel og liðin skildu jöfn.

Þegar allt er tekið þá var þetta með allra bestu leikjum Liverpool á leiktíðinni og aðeins óheppni og klaufaskapur kom í veg fyrir sanngjarnan sigur. Eftir marga slaka leiki í október og nóvember hefur Liverpool verið að spila betur í síðustu þremur leikjum og hver veit nema að liðið sé að færast til betri vegar. Það má að minnsta kosti ekki dragast lengur að eitthvað fari að ganga!

Liverpool: Jones, Toure (Lambert 81. mín.), Skrtel, Sakho, Henderson, Leiva, Gerrard, Markovic (Borini 74. mín.), Lallana, Sterling og Coutinho. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Enrique, Moreno, Manquillo og Can.

Mörk Liverpool: Philippe Coutinho (44. mín.) og Martin Skrtel (90. mín.).

Gult spjald: Fabio Borini.

Rautt spjald: Fabio Borini.

Arsenal: Szczesny, Chambers, Mertesacker, Debuchy, Gibbs, Oxlade-Chamberlain (Campbell 90. mín.), Flamini, Cazorla, Sanchez (Monreal 90. mín.), Giroud (Coquelin 82. mín.) og Welbeck. Ónotaðir varamenn: Martinez, Podolski, Walcott og Maitland-Niles.

Mörk Arsenal: Mathieu Debuchy (45. mín.) og Olivier Giroud (64. mín.).

Gul spjöld: Mathieu Flamini, Mathieu Debuchy og Santiago Cazorla.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.703.

Maður leiksins:
Philippe Coutinho. Brasilíski strákurinn spilaði sinn besta leik á leiktíðinni. Fyrir utan að skora var hann alltaf að reyna að skapa hættu og ógna marki Arsenal. Miklu meiri barátta í honum en hefur verið í langan tíma.  

Brendan Rodgers: Við erum smá saman að komast í það form sem við viljum vera í. Við höfum bara tapað einum af síðustu átta leikjum. Mér fannst við vera framúrskarandi í dag. Maður er farinn að sjá samspilið, ákefðina og, það sem mestu skiptir fyrir okkur, pressuna á andstæðingana.

                                                                       Fróðleikur

- Philippe Coutinho skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.

- Martin Skrtel opnaði markareikning sinn á sparktíðinni.

- Liverpool hefur aðeins unnið einn deildarleik á Anfield frá því í október.

- Liverpool hefur enn ekki skorað meira en tvö mörk í heimaleik á leiktíðinni.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

   
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan