| Heimir Eyvindarson

John Barnes með skýr skilaboð til Sterling

Liverpool goðsögnin John Barnes segir í viðtali við Liverpool Echo í dag að það sé skynsamlegast fyrir Raheem Sterling að halda kyrru fyrir í Liverpool.

Eins og menn vita standa þessa stundina yfir viðræður milli Liverpool og Sterling um nýjan samning. Sterling á að vísu 2 og hálft ár eftir af núverandi samningi sínum, en í ljósi stöðu sinnar í liðinu hefur hann farið fram á hærri laun. Lítið hefur heyrst af samningaviðræðunum annað en það að Liverpool hafi boðið honum 70 þúsund pund á viku, en Sterling fari fram á 100 þúsund pund.

Þessi meinti vandræðagangur í samningaviðræðunum, sem og slæmt gengi Liverpool í vetur, hefur ýtt undir sögusagnir þess efnis að Sterling vilji fara burt frá félaginu. John Barnes vill meina að það væri óheillaskref fyrir ungstirnið.

,,Sterling er mikið efni, en hann er engan veginn fullskapaður leikmaður. Hann hefur sýnt góða takta og er tvímælalaust efni í toppleikmann, en hann á margt eftir ólært og ég held að það væri alls ekki skynsamlegt fyrir hann að yfirgefa Liverpool á þessum tímapunkti." 

,,Ég held að Sterling ætti að skoða hvernig farið hefur fyrir mörgum leikmanninum sem hefur fært sig um set of snemma. Hann er í góðum málum hjá Liverpool. Fær mikið að spila og nýtur trausts stjórans. Tökum Wilfried Zaha sem dæmi. Hann þótti gríðarlegt efni og var stjarna hjá Crystal Palace eftir eitt gott tímabil. Síðan fór hann til Manchester United og það hefur satt að segja lítið af honum frést síðan."

,,Ég er á því að hann ætti að vera um kyrrt hjá Liverpool næstu árin og halda áfram að þróa sinn leik þar sem hann er öruggur um að fá tækifæri til þess. Það væri ekki skynsamlegt að fara núna."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan