| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Fjölmargir landsleikir hafa farið fram síðustu daga og hér er farið yfir hvernig leikmönnum Liverpool gekk með löndum sínum.

Martin Skrtel og félagar í landsliði Slóvakíu unnu sinn sjötta leik í röð þegar þeir sigruðu Finna í vináttuleik 2-1. Heimamenn komust yfir 2-0, fyrra markið kom eftir aðeins mínútu leik og sjö mínútum síðar var mark númer 2 komið. Finnar minnkuðu muninn rétt fyrir hálfleik en markið var sjálfsmark varnarmanns Slóvakíu. Ekki voru fleiri mörk skoruð í seinni hálfleik þrátt fyrir töluverða pressu frá gestunum.

Slóvakar höfðu sigur um helgina í undankeppni EM þegar þeir unnu Makedóna 2-0.

Lazar Markovic lék með landsliði Serba í 66 mínútur þegar þeir báru sigurorð af Grikkjum á heimavelli. Petrovic kom Serbum yfir eftir klukkutíma leik og seinna mark leiksins kom í uppbótartíma, lokatölur 2-0.

Báðir þessir leikir fóru fram á þriðjudagskvöldið en þetta sama kvöld mættu Brasilíumenn Austurríki í Vín og sigruðu 1-2 með mörkum frá David Luiz og Roberto Firminho. Philippe Coutinho sat á varamannabekknum og kom ekkert við sögu í leiknum.

Englendingar léku við nágranna sína í Skotlandi á Hampden Park í Glasgow. Þeir Adam Lallana, Raheem Sterling og Rickie Lambert komu allir inn af varamannabekknum í seinni hálfleik en staðan var þá 0-2 fyrir England þar sem þeir Alex Oxlade-Chamberlain og Wayne Rooney skoruðu mörkin. Skotar minnkuðu muninn en Englendingar áttu síðasta orðið þegar góð sókn upp hægri kantinn endaði með því að Lallana komst inná vítateig upp að endamörkum og sendi boltann inná markteig þar sem Rooney skoraði sitt annað mark í leiknum. Lokatölur 1-3.

Fyrr unnu enskir Slóvena 3-1 á Wembley. Jordan Henderson skoraði sjálfsmark. Wayne Rooney jafnaði úr víti og Danny Welbeck skoraði svo tvö mörk. Raheem Sterling og Adam Lallana voru líka í liðinu.

Á sunnudaginn var Joe Allen í liði Wales sem gerði 0-0 jafntefli í Belgíu. Divock Origi lék með Belgum. Markmaðurinn Danny Ward var varamaður hjá Wales. 

Í dag fögnuðu svo Kolo Toure og félagar þeim áfanga að tryggja sæti sitt í lokamóti Afríkumóts landsliða sem fer fram á næsta ári. Toure og félagar hans í Fílabeinsströndinni gerðu markalaust jafntefli við Kamerún í sjötta og síðasta leik sínum í riðlinum og stigið dugði þeim til að komast áfram.

Kamerún urðu efstir með 14 stig, Fílabeinsströndin fékk 10 stig eftir harða baráttu við Kongó sem enduðu með 9 stig. Fögnuður Fílbeinsstrendinga var mikill í leikslok.

Þess má svo geta Oussama Assaidi skoraði í 2:1 sigri Marokkó á Zimbabwe. Hann er auðvitað núna lánsmaður hjá Stoke. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan