| Sf. Gutt

Af Tékkum

Þegar íslenska landsliðið hefur átt landsleik framundan höfum við stundum skoðað hvaða leikmenn Liverpool hefur átt frá því landi. Nú er það Tékkland. þrír Tékkar hafa leikið með Liverpool.


Patrik Berger kom fyrstur Tékka til Liverpool en hann gekk til liðs við Rauða herinn eftir að hafa leikið vel í silfurliði Tékka á EM 1996. Patrik átti býsna farsælan feril hjá Liverpool og var mjög vinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins. Meiðsli fóru illa með hann á köflum en hann var sannarlaga magnaður og hann var þekktur fyrir sín þrumuskot. Patrik spilaði 196 leiki með Liverpool og skoraði 35 mörk og voru flest þeirra stórglæsileg. Patrik vann F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða og Góðgerðarskjöldinn árið 2001. Hann gekk til liðs við Portsmouth árið 2003.







Vladimir Smicer kom til Liverpol 1999. Þessi hæfileikaríki og snjalli Tékki náði sér aldrei almennilega á flug hjá Liverpool. Ítrekuð meiðsli settu stór strik í reikninga hans en hann var mjög góður inn á milli og sýndi þá virkilega hvað í honum bjó. Vladimir lék 184 leiki með Liverpool og skoraði 19 mörk. Hann vann Deildarbikarinn, F.A. bikarinn og Evrópukeppni félagsliða 2001 en þá var hann með Patrik landa sínum í liðinu. Hann vann svo Deildarbikarinn aftur 2003. Síðasti leikur hans fer þó í annála um alla eilífð. Vladimir kom þá óvænt inn á sem varamaður í Istanbúl þegar Liverpool lék um Evrópubikarinn við AC Milan. Hann skoraði annað mark Liverpool og endaði svo feril sinn hjá félaginu með því að skora í vítaspyrnukeppninni með síðasta sparki sínu í búningi Liverpool.













Milan Baros gekk til liðs við Liverpool 2001. Það var búist við miklu af honum en segja má að Milan hafi aldrei almennilega komist í gang sem markaskorari. Hann varð þó markahæsti leikmaður Liverpool í deildinni á leiktíðinni 2004/05. Hann skoraði þó aðeins níu mörk en það dugði. Í heild skoraði hann 13 mörk á þessari leiktíð sem var hans besta í markaskorun. Alls skoraði hann 27 mörk í 108 leikjum.  Milan vann Deildarbikarinn 2003 og svo Evrópubikarinn með Vladimir landa sínum 2005. Hann varð markakóngur Evrópumóts landsliða 2004. Milan yfirgaf Liverpool árið 2005 og fór til Aston Villa. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan