| Grétar Magnússon

Fréttir af lánsmönnum

Sex leikmenn félagsins sem eru á láni víðsvegar um Evrópu komu við sögu með liðum sínum um helgina.

Á föstudagskvöldið var varnarmaðurinn Rafa Paez ónotaður varamaður þegar Bologna gerði markalaust jafntefli við Modena í ítölsku B-deildinni. Bologna eru í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 leiki og eru í toppbárattu enn sem komið er.

Oussama Assaidi spilaði síðustu 11 mínúturnar með Stoke City þegar liðið tapaði á útivelli fyrir Southampton í Úrvalsdeildinni á laugardaginn. Stoke eru í 12. sæti deildarinnar með 11 stig.

Andre Wisdom spilaði í Úrvalsdeildinni sömuleiðis á laugardaginn með W.B.A. Þeir mættu Crystal Palace á heimavelli og náðu 2-2 jafntefli eftir að hafa lent undir 0-2. W.B.A. eru í 13. sæti með 10 stig.

Í deildinni fyrir neðan spilaði Jordon Ibe fyrri hálfleikinn í 1-2 tapi gegn Wigan á heimavelli. Derby sitja samt sem áður í efsta sæti deildarinnar með 26 stig en tvö önnur lið eru reyndar jöfn þeim að stigum.

Joao Carlos Teixeira spilaði síðustu 10 mínúturnar fyrir Sami Hyypia og félaga í Brighton í sömu deild. Liðið gerði jafntefli við Rotherham á heimavelli 1-1. Brighton eru rétt fyrir ofan fallsæti í deildinni með 13 stig eftir 14 leiki.

Á sunnudaginn kom Iago Aspas inná á 74. mínútu hjá Sevilla þegar þeir mættu Villarreal á heimavelli. Gestirnir komust yfir seint í leiknum en heimamenn náðu að vinna leikinn með mörkum í blálokin. Liðið jafnaði þar með Barcelona að stigum á toppi deildarinnar með 22 stig eftir 9 leiki.

Að lokum má nefna Divock Origi og félaga í Lille í frönsku deildinni. Það fór ekki vel að þessu sinni hjá þeim gegn Rennes á útivelli en lokatölur urðu 2-0. Origi spilaði allan leikinn. Lille sitja í 11. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 11 leiki.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan