| Heimir Eyvindarson

Meiðslasaga markaskorara

Eins og við höfum greint frá hér á síðunni meiddist Daniel Sturridge enn eina ferðina í gær. Meiðslasaga framherjans er ansi mögnuð, svo ekki sé meira sagt.

Meiðsli Daniel Sturridge hafa reynst Liverpool afar dýrkeypt á þessari leiktíð, en eftir brotthvarf Luis Suarez í sumar bundu menn miklar vonir við að Sturridge myndi draga vagn Liverpool liðsins þegar kæmi að markaskorun. Enda hefur drengurinn skorað heil 32 mörk í 46 Úrvalsdeildarleikjum fyrir Liverpool, sem er frábær tölfræði. 

Daniel byrjaði tímabilið vel, en í september meiddist hann á landsliðsæfingu hjá Roy Hodgson, eins og frægt er orðið. Sturridge var við það að ná sér af meiðslunum og allar líkur á að hann myndi spila gegn QPR á morgun, þegar næsta reiðarslag dundi yfir. Kappinn meiddist á æfingu í gær og verður líklega frá í allt að fjórar vikur.

Þetta er hreint ekki í fyrsta skiptið sem Sturridge meiðist, en fram að þessari leiktíð hefur það ekki skipt liðið eins miklu máli, þar sem Luis Suarez var oftar en ekki fullfær um að raða inn mörkum. Nú nýtur hans ekki lengur við og aðrir framherjar liðsins hafa ekki enn náð sér á strik. Þessvegna söknum við Sturridge sem aldrei fyrr.   

Meiðslasaga Sturridge er ansi mögnuð og hér er smá yfirlit:

Febrúar og mars 2013: Missir af tveimur leikjum í febrúar vegna meiðsla á læri. Kemur til baka í einn leik í mars, en meiðslin taka sig upp og hann missir af næstu tveimur leikjum.

Maí 2013: Missir af landsleik vegna ökklameiðsla.

September 2013: Missir af tveimur landsleikjum vegna meiðsla á læri. 

Nóvember 2013: Missir af einum landsleik vegna smávægilegs fótameins, skömmu síðar meiðist hann á ökkla og er frá í sex vikur. Missir meðal annars af allri jólavertíðinni.

Apríl 2014: Fer meiddur af velli í leik gegn Manchester City. Missir af einum leik til viðbótar.

Júlí 2014: Kemur meiddur heim úr æfingaferð Liverpool til Bandaríkjanna.

September 2014: Meiðist á læri á landsliðsæfingu. Frá í sex vikur.

Október 2014: Rétt í þann mund sem hann er að koma til baka eftir meiðslin frá því í september meiðist hann á nýjan leik. Að þessu sinni er um kálfameiðsl að ræða.

Við óskum Daniel Sturridge góðs bata og vonum jafnframt að meiðslasaga hans verði ekki svona svæsin það sem eftir lifir af ferli hans hjá Liverpool. 

YNWA!








 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan