| Sf. Gutt

Annað tapið í röð

Varaliðið (U21) okkar tapaði illa í deildinni í gærkvöldi á heimavelli fyrir Southampton, 3-1 í hörkuleik. Þetta var annað tap liðsins í röð.

Frá upphafi var ljóst að bæði lið ætluðu sér að halda boltanum niðri og byggja upp spil frá aftasta manni með stuttum og snörpum sendingum þrátt fyrir ausandi rigningu á Anfield.

Fyrsta færi leiksins kom þó eftir langa sendingu fram á vallarhelming Liverpool sem skapaði færi fyrir gestina úr suðri, en skot Jake Flannigan fór naumlega yfir mark Danny Ward eftir 4 mínútna leik.

Stuttu síðar reyndi verulega á markvörð Southampton, Paulo Gazzaniga, er hann varði vel skalla Harry Wilson eftir fyrirgjöf Joe Maguire og enn var Gazzaniga vel á verði við nærstöng sína eftir gott skot Ryan McLaughlin.

Litlu munaði eftir um 20 mínútna leik að gott samspil þeirra Cameron, Brannagan, Jordan Williams og Connor Randall sem setti á endanum Wilson inn fyrir vörn gestanna, endaði með marki eða færi, en sú sókn rann út í sandinn þegar hælspyrna frá Wilson fann engan samherja.

Fyrsta mark leiksins kom svo á 24. mínútu er nían hjá Dýrlingunum, Seager, skoraði neðst í markhornið eftir að hafa þvingað Lloyd Jones í mistök og refsað fyrir þau eins og alvöru senterar gera svo oft. Forystan var þó skammvinn þar sem aðeins nokkrum sekúndum síðar höfðu okkar strákar jafnað leikinn. Það var sjálfsmark Nial Mason eftir fyrirgjöf á fjær frá Jerome Sinclair, 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði illa og var aðeins 7 mínútna gamall er gestirnir tóku forystuna á nýjan leik og aftur var Seager þar á ferðinni með sitt annað mark í leiknum. Það var hraðinn á Omar Rowe sem bjó til markið er hann geystist inní vítateig okkar manna og gaf þar á Seager sem tók hann viðtstöðulaust í hægra hornið, 1-2.

Liverpool reyndi hvað þeir gátu að jafna og nálægt voru þeir er Sinclair átti skot sem Gazzaniga varði en hélt ekki boltanum sem virtist ætla að sigla til Brannagan en markvörðurinn varð fyrri til og blakaði frákastinu naumlega frá okkar manni áður en hann komst í hann. Aftur þurfti markvörður gestanna að taka á honum stóra sínum er Wilson átti hörkuskot að marki.

Eftir því sem leið á leikinn og Liverpool fór að henda fleiri mönnum fram í þeirri von að jafna leikinn opnaðist vörnin og Seager var hársbreidd frá þrennunni er hann rétt missti af fyrirgjöf inn í teiginn frá Mason.

Aftur var Seager á ferðinni seint í leiknum í leit sinni að sínu þriðja marki en Ward sá við honum. En eitthvað varð svo undan að láta og kláraðu Southampton menn leikinn á 90. mínútu er Hesketh kom sínum mönnum í 3-1 sem urðu úrslit leiksins.

Liverpool U21: Ward, Randall (Trickett-Smith), Maguire, Stewart, Jones, Williams, McLaughlin (Rossiter), Phillips (O'Hanlon), Sinclair, Brannagan og Wilson. Ónotaðir varamenn: Vigouroux og Cleary.

Elvar Guðmundsson ritaði leikskýrsluna. 











TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan