| Grétar Magnússon

Ég get lært af Jordan

Emre Can hrósar Jordan Henderson í nýju viðtali við opinbera heimasíðu félagsins. Hann segist geta lært mikið af honum í framtíðinni.

Can er að jafna sig af ökklameiðslum sem hann hlaut í síðasta landsleikjahlé með U21 árs landsliði Þjóðverja í 8-0 sigri á Rúmeníu. Hann hafði áður komið við sögu í tveim leikjum liðsins, í bæði skiptin sem varamaður fyrir Joe Allen gegn Manchester City og Tottenham Hotspur.

Þrátt fyrir fáar mínútur á vellinum það sem af er tímabils og fjarveru frá æfingum vegna meiðslanna hefur hann haft tækifæri til að fylgjast með og meta nýja liðsfélaga sína. Hann segir að Jordan Henderson sé leikmaður sem hafi vakið hrifningu sína.

,,Jordan Henderson átti frábært tímabil í fyrra og mér líkaði það sem ég sá. Hann er leikmaður sem gefur allt sem hann á fyrir félagið. hann er baráttuhundur og maður sér það á æfingum líka. Hann er klárlega frábær leikmaður og hann spilar góða knattspyrnu. Hann var ekki gerður að varafyrirliða að ástæðulausu. Ég held að ég geti lært mikið af honum."

Henderson var gerður að varafyrirliða í september og kom það fáum á óvart. Þrátt fyrir aukna ábyrgð hefur Henderson ekki misst fókus á það sem skiptir máli og var frammistaða hans í slökum september mánuði eitt af því fáa sem gladdi augað hjá stuðningsmönnum.

Can heldur áfram að lofa hann og segir: ,,Hann setur hjartað svo sannarlega í allt sem hann gerir. Hann hleypur og hleypur og gefur 100 prósent fyrir félagið í hverjum leik og á hverri einustu æfingu. Ég held að ég geti lært af öllum þeim sem spila sömu stöðu og ég. Ég mun gefa allt sem ég get á æfingum og sé svo hvað ég get lært."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan