| Heimir Eyvindarson

Slæmt tap í Sviss

Liverpool tapaði fyrir Basel á útivelli í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Lokatölur urðu 1-0 fyrir heimamenn.Brendan Rodgers gerði lítilsháttar breytingar á liðinu frá grannaslagnum gegn Everton um helgina. Jose Enrique og Philippe Coutinho byrjuðu leikinn, á kostnað Adam Lallana og Alberto Moreno. 

Annars er fátt að segja um þennan leik. Liverpool var ekki upp á sitt besta í kvöld og leikurinn var lítið fyrir augað.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og eina almennilega færið kom á 35. mínútu þegar Serey Die sneri á Enrique og Lovren og skaut að marki, en Mignolet varði vel. 

Síðari hálfleikur var heldur skárri en sá fyrri, en á 52. mínútu skoruðu heimamenn markið sem skipti sköpum í leiknum. Markið kom eftir hornspyrnu þar sem boltinn fór í kollinn á Skrtel og bakið á Lovren sem endaði með því að Mignolet þurfti að verja með miklum tilþrifum. Það vildi þó ekki betur til en að boltinn barst beint fyrir fætur helsta markaskorara Svisslendinganna, Marco Streller, sem átti ekki í vandræðum með að klára færið. Staðan 1-0.

Eftir markið lifnaði aðeins yfir Liverpool liðinu og Balotelli, Markovic og Sterling áttu allir nokkuð hættulegar tilraunir, en án árangurs.

Niðurstaðan í Sviss slæmt 1-0 tap í baráttunni um 2. sæti riðilsins.

Basel: Vaclick, Xhaka, Schär, Suchy, Safari (Gonsalez á 10. mín.), Embolo (Calla á 81. mín.), Serey Die, Frei, Elnony, Hamoudi (Zuffi á 90. mín.) og Streller. Ónotaðir varamenn: Vailati, Delgado, Kakitani og Gashi.

Mark Basel: Streller á 52. mín.

Gult spjald: Suchy. 

Liverpool: Mignolet, Manquillo, Skrtel, Lovren, Enrique, Gerrard, Henderson, Coutinho (Lallana á 70. mín.), Markovic (Lambert á 81. mín.), Sterling, Balotelli. Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Lallana, Moreno, Leiva  og Borini.

Gul spjöld: Raheem Sterling, Steven Gerrard og Mario Balotelli.

Áhorfendur á St. Jakob Park: 36,000.

Maður leiksins: Simon Mignolet var líklega skástur í frekar slöku liði Liverpool í kvöld. Hann gat lítið gert að markinu og stóð vaktina ágætlega. 

Brendan Rodgers: Við byrjuðum leikinn mjög illa en komumst síðan ágætlega inn í hann í fyrri hálfleik. Eftir að hafa byrjað seinni hálfleik betur en þann fyrri var hrikalega svekkjandi að fá þetta mark á sig. Varnarvinnan var alls ekki nógu góð og enn einu sinni fáum við á okkur ódýrt mark eftir fast leikatriði. Það er svakalega svekkjandi, eftir alla vinnuna sem við höfum lagt í einmitt þetta á æfingasvæðinu. Við verðum að gera betur.

Fróðleikur

- Leikurinn í kvöld var fyrsti útileikur Liverpool í Meistaradeildinni í 5 ár.

- Þetta var þriðja viðureign Liverpool og Basel og Liverpool hefur ekki enn náð sigri. Síðast mættust liðin leiktíðina 2002-2003 og þá enduðu báðir leikirnir með jafntefli.

-Martin Skrtel lék í dag sinn 250. leik fyrir Liverpool. Hann hefur skorað 16 mörk fyrir félagið.

- Jose Enrique lék leik númer 90 fyrir Liverpool. Hann hefur skorað tvívegis.

- Jordan Henderson spilaði sinn 140. leik fyrir félagið. Jordan hefur skorað 13 mörk.

- Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

- Hér má lesa viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.









TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan