| Grétar Magnússon

Henderson gerður að varafyrirliða

Það var tilkynnt í kvöld að Jordan Henderson hafi verið gerður að varafyrirliða félagsins. Eftir að Daniel Agger var seldur í sumar var þessi staða laus.


Það kemur fáum á óvart að Henderson skyldi vera fyrir valinu en þessi gríðarlega vinnusami miðjumaður hefur unnið hug og hjörtu stuðningsmanna með frábærri spilamennsku. Það eru aðeins þrjú ár síðan hann kom til félagsins, upphæðin sem greidd var fyrir hann var há og hans fyrsta tímabil var ekki til þess að auka vinsældir hans. Framtíð hans var svo nánast ráðin þegar allt leit út fyrir að hann yrði sendur til Fulham í skiptum fyrir Clint Dempsey á lokadegi gluggans árið 2012 en sem betur fer gerðist ekkert slíkt.

Henderson beit á jaxlinn og er núna orðinn einn mikilvægasti leikmaður liðsins. Hann hefur spilað alls 136 leiki fyrir félagið og skorað 13 mörk, hann hefur aðeins misst af þremur leikjum vegna leikbanns á ferli sínum hjá Liverpool.

Brendan Rodgers staðfesti val sitt á varafyrirliðanum en fyrsti leikur Henderson í Meistaradeildinni og jafnframt fyrsti leikur hans sem varafyrirliði verður annað kvöld gegn Ludogorets Razgrad.

,,Jordan er maður sem sýnir það best hvað þetta félag snýst um, sem lið og sem heild," sagði stjórinn.

,,Bæði hann og Steven eru fordæmi fyrir aðra með því hvernig þeir koma fram innan sem utan vallar. Þannig lifa þeir lífi sínu, þannig æfa þeir og þannig nálgast þeir vinnu sína. Jordan er algjörlega tryggur leik sínum og leiðtogahæfileikar koma fram í því fordæmi sem hann gefur. Þetta er annar frábær kafli í sögu hans hjá félaginu og sýnir hversu miklum framförum hann hefur tekið."

,,Fyrir félag sitt og landslið ber hann sig ávallt vel, hann er er mikils metinn og ég hef trú á að hann eigi eftir að vera mikilvægur leikmaður hér um ókomin ár."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan