| Elvar Guðmundsson

Á þessum degi

Góðan og blessaðan daginn. Ýmislegt merkilegt gerðist í sögu Liverpool þennan dag þar sem m.a. KR var burstað, goðsögn hverfur á braut og McMahon spilar sinn fyrsta leik.



Goðsögn hverfur á braut

1978 - Ian Callaghan fer til Swansea á frjálsri sölu. Hann hafði hjálpað liðinu til að vinna 5 deildartitla, tvo FA bikara, einn Evróputitil meistaraliða, tvo Evróputitla félagsliða, Ofurbikar Evrópu og þrjá góðgerðarskildi. Að auki var hann valinn leikmaður ársins af íþróttablaðamönnum fyrir tímabilið 1973/1974. Hann er sá leikmaður sem hefur spilað flesta leiki fyrir klúbbinn eða alls 857 og skoraði í þeim leikjum 68 mörk.





Í Evrópukeppni í fyrsta sinn

1964 - KR kom í heimsókn í fyrsta Evrópuleik Liverpool á Anfield. Bobby Graham skoraði í sínum fyrsta leik fyrir liðið í 6-1 bursti og 11-1 samanlagt. Ian St. John setti tvö og þeir Gerry Byrne, Roger Hunt og Willie Stevenson rest í leik þar sem Alan A'Court lék sinn 381. og síðasta leik fyrir klúbbinn. Að sögn fyrirskipaði Bill Shankly Ron Yeats að leyfa KR að skora þegar Liverpool var komið í 7-0 samanlagt! Gunnar Felixson var með eina mark KR í leiknum en hvort hann hafi fengið það að gjöf eða ekki skal ósagt látið...





Mörk í opnunarleikjum fyrir klúbbinn
2002 - Milan Baros setti tvö í sínum fyrsta leik fyrir okkur í 3-2 útisigri á Bolton. Þar gerði Emile Heskey sigurmarkið seint í leiknum eftir að Ivan Campo hafði jafnað þegar langt var liðið á leikinn.
1946 - Bolton var aftur sigrað á þessum degi, nú 3-1 með mörkum frá nýliðanum Albert Stubbins, Berry Nieuwenhuys og Jack Balmer. 
1901 - Það tók Bill White aðeins 2 mínútur að brjóta ísinn í sínum fyrsta leik fyrir liðið í 2-2 jafntefli á móti Everton á Anfield.

Þrennur á Anfield
1895 - Jimmy Ross setti þrennu í 5-1 bursti á Newcastle.
1935 - Fred Howe gerði einnig hattrick á móti Grimsby í 1. deild, 7-2 fóru leikar.





Fyrstu leikir fyrir Liverpool
1985 - Steve McMahon lék sinn fyrsta leik fyrir liðið í 2-2 jafntefli úti á móti Oxford. Þar kom John nokkur Aldridge Oxford yfir áður en Ian Rush og Craig Johnston jöfnuðu og komu okkur yfir. Það var svo sjálfsmark frá Alan Kennedy á lokamínútunni sem tryggðu Oxford stig í þessum 359. og síðasta leik hans fyrir Rauðliða.
1999 - Djimi Traore með sinn fyrsta leik í 5-1 útisigri á Hull í 2. umferð deildarbikarsins. Erik Meijer með sín einu tvö fyrir okkur, ásamt tveimur frá Danny Murphy (hans fyrstu fyrir LFC) og einu frá Steve Staunton. 
2000 - Bernard Diomede lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool í góðum 1-0 útisigri á Rapid Bukarest í Evrópukeppni félagsliða. Nick Barmby með markið, hans fyrsta fyrir klúbbinn, og Christian Ziege með sinn fyrsta leik í byrjunarliði. Um vorið var svo Evrópubikar félagsliða hampað eftir magnaðan úrslitaleik gegn Alaves á Westfalenstadion í Dortmund.





Önnur Evrópuævintýri

Þrisvar áður höfum við unnið opnunarleiki í Evrópukeppnum þennan dag.
1976 - Phil Neal skoraði úr vafasamri vítaspyrnu og John Toshack með eitt í 2-0 sigri á N-írska liðinu Crusaders á Anfield í fyrsta leik þessa tímabils í Evrópukeppni meistaraliða. Um vorið var svo sjálfum Evrópubikarnum lyft í Róm eftir 3-1 sigur á B. Mönchengladbach.
1982 - Ronnie Whelan gerði tvö og þeir Ian Rush og David Hodgson með sitthvort markið tryggðu góðan 4-1 útisigur á Dundalk. Mark heimamanna kom úr aukaspyrnu sem var dæmd á Bruce Grobbelaar fyrir að taka of mörg skref með boltann inní teig!
1983 - Kenny Dalglish var með eina markið í 1-0 sigri á OB í Odense.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan