| Sf. Gutt

Enn er Villa til vandræða á Anfield


Líkt og mörg síðustu árin lenti Liverpool í stökustu vandræðum með Aston Villa á Anfield. Það gekk hvorki né rak hjá Liverpool og gestirnir fóru heim með öll stigin eftir 0:1 sigur.

Þó komið væri fram á síðdegið var engu líkara en leikmenn Liverpool væru nývaknaðir í byrjun leiksins. Það skilaði sér líka í því að liðið lenti undir á 9. mínútu. Vörnin var steinsofandi eftir horn frá vinstri og Gabriel Agbonlahor náði að sópa boltanum liggjandi í markið. Rétt á eftir fékk Philippe Senderos dauðafæri eftir aukaspyrnu en hann skallaði hátt fyrir óvaldaður. Vörn Liverpool var mjög óörugg í byrjun og liðið allt kraftlaust.

Það var ekki fyrr en á 43. mínútu að Liverpool átti almennilega marktilraun. Adam Lallana átti þá þrumuskot frá vítateignum en boltinn fór hárfínt framhjá. Á lokamínútu hálfleiksins fékk Mario Balotelli boltann vinstra megin við vítateiginn. Hann átti skot þaðan sem fór í varnarmann og af honum sveif boltinn rétt framhjá vinklinum fjær.

Alberto Moreno komst svo rétt á eftir einn inn í vítateiginn en hann ákvað að gefa boltann fyrir markið í stað þess að skjóta. Varnarmaður komst fyrir og bjargaði. Furðuleg ákvörðun hjá Alberto að skjóta ekki því hann afgreiddi boltann örugglega í markið hjá Tottenham í síðasta leik úr svipaðri skotstöðu.

Liverpool átti síðari hálfleikinn með húð og hári. Sótt var linnulaust að Kop stúkunni en það var varla að færi skapaðist. Vörn Villa varðist öllu af krafti. Brendan Rodgers sendi þá Fabio Borini og Rickie Lambert til leiks en þeir sáust ekki. Áður var Raheem Sterling, sem ekki hóf leikinn, sendur inn á en hann komst lítið meira inn í leikinn.

Það munaði á hinn bóginn bara tommu eða svo að Liverpool jafnaði metin þegar tíu mínútur voru eftir. Philippe Coutinho kom sér þá laglega í skotstöðu við vítateiginn þaðan sem hann þrumaði að marki en boltinn small í stönginni. Boltinn hrökk út og þar átti Raheem Sterling skot í Jordan Henderson og framhjá. Dæmigert fyrir leik Liverpool í dag og gestirnir unnu.

Liverpool var langt frá sínu besta í dag og augljóst var að mikið vantar eftir brottför Luis Suarez og eins munaði miklu að hinn hinn meiddi Daniel Surridge skyldi ekki geta spilað. Þeir sem spiluðu í dag áttu þó að geta miklu meira. Kannski réði þó það mikla tak sem Aston Villa hefur á Liverpool á Anfield mestu þegar upp var staðið. Það er jú margt skrýtið í veröldinni!

Liverpool: Mignolet, Manquillo, Lovren, Sakho, Moreno, Gerrard, Henderson, Markovic (Borini 71. mín.), Coutinho, Lallana (Sterling 61. mín.) og Balotelli (Lambert 71. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Enrique, Toure og Leiva.

Gul spjöld: Adam Lallana og Alberto Moreno.

Aston Villa: Guzan, Hutton, Senderos, Baker, Cissokho, Cleverly (Sanchez 86. mín.), Westwood, Delph, Agbonlahor (Bent 90. mín.), Weimann (N´Zogbia 72. mín) og Richardson. Ónotaðir varamenn: Given, Okorem, Bacuna og Grealish.

Mark Aston Villa: Gabriel Agbonlahor (9. mín.).

Gult spjald: Alan Hutton.

Áhorfendur á Anfield: 44.689.

Maður leiksins: Jordan Henderson. Hann var langt frá sínu besta en það var helst að barátta væri í honum.

Brendan Rodgers: Við byrjuðum rólega og gáfu þeim ódýrt mark. Við náðum þó upp auknum hraða í leik okkar eftir það. Leikmennirnir gáfu allt í þetta en það vantaði góða endahnúta og Aston Villa á hrós skilið.

                                                                                 Fróðleikur:

- Adam Lallana lék sinn fyrsta leik með Liverpool.

- Gengi Aston Villa á Anfield er með ólikindum gott þessi árin. Liðið hefur nú unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum á Anfield.

- Liverpool vann Villa síðast á Anfield í desember 2010. Þá vannst 3:0 sigur undir stjórn Roy Hodgson.  

- Liverpool hefur tapað tveimur af fjórum fyrstu leikjum sínum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan