| Heimir Eyvindarson

Agger lýsir ágreiningi við Rodgers

Daniel Agger segir að aðalástæða þess að hann spilaði ekki meira en raun bar vitni á síðustu leiktíð hafi verið ágreiningur milli hans og Brendan Rodgers.

Í samtali við danska vefmiðilinn bold.dk segir Agger að hann hafi verið í fínu líkamlegu ástandi á síðustu leiktíð og hann hefði getað spilað mun fleiri leiki en hann gerði, en hann lék einungis 23 leiki með Liverpool á síðasta tímabili samanborið við 39 og 34 leiki tímabilin þar á undan. 

,,Ég og stjórinn vorum ósammála um ákveðna hluti. Það er auðvitað hann sem ræður, þannig að því fór sem fór. Ég var í ágætu standi og hefði getað spilað mun fleiri leiki, en Brendan valdi stundum að hafa mig fyrir utan liðið."

,,Það er auðvitað hans ákvörðun og ég virði hana. Það eina sem ég gat gert í þeirri stöðu var að spila eins vel og ég gat þegar ég var valinn og reyna að hjálpa liðinu til sigurs í þeim leikjum sem ég spilaði. Það tókst ágætlega því þeir unnust nánast allir."

,,Nú hlakka ég bara til að spila með Brøndby. Vonandi næ ég að spila sem flesta leiki og hjálpa liðinu eins mikið og ég mögulega get." 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan