| Grétar Magnússon

Meiðslafréttir

Það voru ekki góðar fréttir sem Brendan Rodgers flutti af leikmönnum sínum núna eftir landsleikjahléð. Margir leikmenn hafa snúið til baka meiddir eftir landsleikjahlé.





Emre Can meiddist á ökkla í leik með þýska U-21 árs liðinu og verður frá í allt að sex vikur. Joe Allen á einnig við meiðsli að stríða og fyrr í dag fluttum við fréttir af meiðslum Daniel Sturridge sem verður frá í allt að þrjár vikur. Þar gagnrýndi Rodgers þjálfaralið landsliðsins fyrir að passa ekki nógu vel uppá Sturridge en samkvæmt venju fær Sturridge lengri hvíld eftir leiki til að jafna sig en aðrir leikmenn. Hinsvegar ákvað þjálfarateymi Englendinga að hann ætti að geta æft og á þeirri æfingu hlaut hann meiðslin.

Allen verður skoðaður nánar og hvort hann spili eða ekki á móti Aston Villa á laugardaginn verður ákveðið eins seint og hægt er. Rodgers segir að ein af ástæðum meiðslanna sé hræðilegur gervigrasvöllur sem landslið Wales spilaði á gegn Andorra.

Rodgers minntist ekkert á Jordan Henderson á blaðamannafundinum og má því gera ráð fyrir því að hann sé klár í slaginn eftir að hafa meiðst smávægilega fyrir leikinn við Sviss, en hann spilaði svo þann leik frá byrjun.

Rodgers var einnig spurður út í atvik varðandi Mario Balotelli en það spurðist út að hann hefði sparkað í höfuð eins leikmanna Wolves í æfingaleik á meðan á landsleikjahlénu stóð. Rodgers sagði að sú saga væri uppspuni frá rótum og að Balotelli væri gull af manni og hagað sér einstaklega vel síðan hann gekk til liðs við félagið.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan