| Grétar Magnússon

José Enrique er tilbúinn í slaginn

Spænski bakvörðurinn José Enrique hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið ár eða svo. Hann meiddist illa á síðasta tímabili og spilaði ekkert frá því í nóvember, hann hefur nú náð sér að fullu eftir meiðslin og bíður spenntur eftir því að nýta tækifæri sitt þegar kallið kemur.


Enrique kom inná sem varamaður í seinni hálfleik í 0-3 sigrinum á Tottenham á sunnudaginn var, þetta var þá fyrsti leikur hans með félaginu í Úrvalsdeildinni í heila níu mánuði. Annar Spánverji, Alberto Moreno, vakti auðvitað meiri athygli í leiknum þar sem hann var í byrjunarliðinu og skoraði frábært mark í seinni hálfleik. Þeir samlandar munu því berjast um sæti í liðinu og það er áskorun sem Enrique er tilbúinn að takast á við.

,,Eftir að hafa verið svona lengi í burtu var frábært að fá að spila á ný," sagði Enrique. ,,Eina vandamálið var að þegar ég var orðinn almennilega heitur var leikurinn búinn. Ég geri mér grein fyrir því að ég verð að taka þetta í litlum skrefum og vera þolinmóður."

,,Moreno gerði mjög vel og skoraði stórkostlegt mark. Fyrir mér var það besta við markið hvernig hann pressaði sóknarmann Tottenham og vann af honum boltann. Það var helmingurinn af markinu. Hvernig hann kláraði svo færið var ótrúlegt."

,,Það mikilvægast er að við erum lið. Þetta er liðsíþrótt og við verðum allir að berjast til þess að liðið verði betra. Vonandi getum við gert betur en á síðasta tímabili. Ég mun fá mín tækifæri. Ég veit að stjórinn hefur trú á mér og ég er ánægður með það."

Enrique sparaði heldur ekki hrósið í garð Raheem Sterling sem var maður leiksins gegn Tottenham, hann er fullviss um að liðsfélagi sinn muni hafa mikil áhrif á gengi liðsins á tímabilinu.

,,Raheem er einn besti ungi leikmaðurinn í heimi í dag, það er alveg á hreinu," sagði Enrique.

,,Hann er að standa sig ótrúlega vel hjá okkur. Ég held að hann muni skora um og yfir 15 mörk á tímabilinu, við höfum allir nú þegar sagt honum það. Hann mun hafa mikil áhrif á það hvernig liðinu gengur. Hann er ennþá ungur en maður sér hversu mikið hann hefur bætt sig undanfarin tvö ár."

,,Margir töluðu um fyrir tímabilið að hann gæfi ekki nógu margar stoðsendingar eða skoraði nógu mörg mörk en hann er kominn með tvö mörk nú þegar. Þegar mörkin bætast við sér fólk að hann er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir okkur."

Um nýjasta leikmann félagsins sagði Enrique.

,,Allir vita að Mario Balotelli hefur þau gæði sem til þarf til að vera einn besti sóknarmaður heims. Hann veit að þetta er frábært tækifæri, að spila fyrir Liverpool og ég held að hann muni gera vel."

,,Þann tíma sem hann hefur verið hér höfum við rætt mikið saman og í búningsklefanum er hann búinn að smella vel inní hópinn. Vonandi er það sem við sáum gegn Tottenham það sem koma skal, hann getur haft mikið að segja fyrir okkur inná vellinum."

,,Við erum með sex stig nú þegar í deildinni af níu mögulegum og það er fín byrjun. Við höfum nú þegar klárað tvo mjög erfiða útileiki gegn sterkum liðum í deildinni. Mér fannst við betri en Tottenham allan leikinn. Við pressuðum hátt uppi og vorum svo með sóknarmenn sem gátu drepið leikinn þegar tækifæri gafst til."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan