| Grétar Magnússon

Agger til Bröndby

Í dag var tilkynnt að Daniel Agger hafi verið seldur til Bröndby í Danmörku. Hann var einmitt keyptur frá félaginu fyrir rúmum átta árum síðan.


Daneil Agger er orðinn 29 ára gamall og hefur aðeins spilað fyrir Liverpool og Bröndby á sínum ferli. Í janúar 2006 var hann keyptur til Liverpool og spilaði hann alls 232 leiki og skoraði 14 mörk.

,,Liverpool hefur verið stór hluti af lífi mínu og fjölskyldu minnar svo lengi, að yfirgefa félagið er því mjög erfitt," sagði Agger í viðtali við opinbera heimasíðu félagsins.


,,Tækifærið gafst núna til að snúa aftur heim til Bröndby og á þessu stigi ferils míns finnst mér það vera rétt ákvörðun. Ég myndi ekki vilja fara héðan til nokkurs annars félags og það hef ég sýnt og sannað með gjörðum mínum undanfarin ár - ég hef hafnað mörgum tilboðum frá liðum í Úrvalsdeildinni og annar sstaðar í Evrópu."

,,Ég vil þakka stuðningsmönnum félagsins fyrir ótrúlegan stuðning þann tíma sem ég hef verið hérna og hlýjan og örlætið sem fjölskyldunni minni hefur verið sýnd í gegnum árin. Þetta hefur verið heimili okkar þar sem við höfum verið hamingjusöm og liðið vel. Hinsvegar hef ég verið að finna fyrir áhrifum þess að spila reglulega í deild sem er eins líkamlega krefjandi og Úrvalsdeildin er og ég hefði ekki viljað vera áfram vitandi það að ég get ekki staðist þessa áskorun daginn út og inn."


,,Félagið sjálft er mjög sérstakt og ég mun vera stuðningsmaður þess alla mína ævi. Ég lít á hvern leik sem ég spilaði á Anfield sem forréttindi."

Brendan Rodgers hefur unnið með Agger síðan hann kom til félagsins og þakkaði honum fyrir viðhorf sitt til félagsins og þann karakter sem Daninn hefur að geyma.

,,Við óskum Daniel og fjölskyldu hans velfarnaðar í framtíðinni. Við höfum verið að ræða framtíð hans við hann núna í lok undirbúningstímabilsins og ég veit að þetta er ákvörðun sem hann hefur tekið eftir mikla íhugun og sjálfsskoðun."

,,Daniel elskar Liverpool og stuðningsmenn félagsins og hann á einstakt samband við þá. Þegar við nutum svo þeirra forréttinda að spila við Bröndy á undirbúningstímabilinu sáum við hversu mikils hann er metinn og ég skil vel af hverju hann vill snúa aftur til félagsins. Fyrir hönd allra hjá félaginu þakka ég Daniel fyrir þjónustu hans og vonandi lýkur hann ferlinum á ánægjulegan hátt í Danmörku."

Daniel Agger vann tvo titla með Liverpool. Hann var Skjaldarhafi árið 2006 þegar Liverpool vann Chelsea 2:1. Daniel varð svo Deildarbikarmeistari 2012 þegar Liverpool vann Cardiff City á nýja Wembley.

Daniel hefur lengi verið danskur landsliðsmaður og á örugglega eftir að spila marga landsleiki í viðbót. Hann hefur verið fyrirliði Dana síðustu árin.

Það verður að segjast eins og er að þessi vistaskipti koma nokkuð á óvart. Reyndar nefndi Daniel, í sumar þegar Liverpool og Bröndby mættust að hann gæti vel hugsað sér að spila með Bröndy á nýjan leik áður en ferlinum lyki. Hann hefur síðan verið orðaður við ýmis stærri félög svo sem Barcelona. Trúlega áttu ekki margir von á því að Daniel færi svona fljótt aftur heim til Danmerkur.

Hér má lesa allt það helsta um feril Daniel Agger á LFChistory.net. 

Hér eru myndir af ferli Daniel Agger af Liverpoolfc.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan