| Sf. Gutt

Tap fyrir Englandsmeisturunum

Liverpool fékk að finna fyrir því í heimavígi Englandsmeistara Manchester City í kvöld og tapaði 3:1. Þrír leikmenn léku í fyrsta sinn með Liverpool og nýjasti nýliðinn Mario Balotelli sat uppi í stúku á gamla heimavellinum sínum.  

Alberto Moreno var settur í byrjunarliðið í sinn fyrsta leik og Lazar Markovic kom á bekkinn eftir að hafa verið meiddur frá því í Ameríkuferðinni.

Upphafskafli leiksins lofaði góðu fyrir Liverpool. Raheem Sterling var mjög snarpur og varnarmenn City áttu í mestu vandræðum með hraða hans. City fékk fyrsta færið eftir stundarfjórðung. Sending frá vinstri rataði yfir alla yfir á fjærstöng og þar fékk Pablo Zabaleta boltann en skot hans fór hátt yfir. Rétt á eftir átti Yaya Toure skot utan teigs sem Simon Mignolet varði af öryggi. 

Eftir rúman hálftíma fékk Daniel Sturridge boltann vinstra megin í vítateignum. Hann lék laglega á Vincent Kompany með snöggri gabbhreyfingu og þrumaði á markið en Joe Hart stóð staðfastur fyrir og varði. Allt í fínasta lagi hjá Liverpool þar til City skoraði allt í einu á 41. mínútu. Sending kom inn í vítateiginn frá hægri. Dejan Lovren skallaði of laust frá en Alberto Moreno hefði vel getað hreinsað en hann svaf á verðinum. Stevan Jovetic notfærði sér það vel með því að taka boltann af Spánverjanum og skora með skoti undir Simon. Slæm mistök hjá Alberto sem var búinn að spila vel. Meistararnir komnir yfir og jafnvel mátti segja að það væri gegn gangi leiksins en staðreynd samt og svo stóð í hálfleik.

Liverpool jafnaði snemma í síðari hálfleik þegar Glen Johnson sendi inn á vítateiginn þar sem Daniel skoraði en hann var rangstæður. Litlu mátti þó muna í þeim efnum. Heimamenn skoruðu svo aftur á 55. mínútu. Snöggt samspil við vítateiginn endaði með því að Samir Nasri sendi fyrir á Stevan sem skoraði rétt utan markteigs. Vel gert hjá Svartfellingnum sem Rafael benítez hafði mikinn hug á að kaupa á sínum tíma.  

Lazar Markovic kom inn á í sinn fyrsta leik á 60. mínútu og átti stóran þátt í tveimur góðum sóknum í kjölfarið sem voru nærri þvi að gefa eitthvað af sér. Daniel átti svo gott skot úr þröngu færi hægra megin í vítateignum en Joe sló boltann frá sem var þó nærri lentur í markinu. Þar munaði litlu að Liverpool lagaði stöðuna en þess í stað gerði City út um leikinn á 69. mínútu. Tveir varamenn áttu markið. Jesus Navas sendi inn fyrir vörnina á Sergio Aguero sem skoraði af öryggi framhjá Simon sem kom út á móti honum. Mögnuð afgreiðsla hjá Sergio sem var víst búinn að vera heilar 23 sekúndur inni á vellinum! 

Úrslitin voru svo til ráðin þarna en Liverpool komst aðeins inn í leikinn þegar sjö mínútur voru eftir. Daniel vann þá boltann með harðfylgi af varnarmanni til hliðar við vítateiginn hægra megin. Hann sendi fyrir á varamanninn Rickie Lambert sem skallaði að marki af stuttu færi en Joe varði. Boltinn hrökk þó í Pablo Zabaleta og þaðan í markið. Smá von og hún hefði getað vaxið rétt á eftir þegar Rickie komst í góða stöðu vinstra megin í teignum en í stað þess að skjóta ákvað hann að reyna að gefa á Daniel en Vincent sparkaði frá og þar með fór síðasti möguleiki Liverpool. Furðulegt að Rickie skyldi ekki skjóta sjálfur.

Ekki bætti úr skák að Glen Johnson fór meiddur af velli og Liverpool lék síðustu mínúturnar manni færri. Martin Skrtel og Alberto meiddust eftir þetta en náðu að ljúka leiknum með herkjum. Slæm niðurstaða sem var heldur verri en þurfti miðað við gang leiksins. Englands- og Deildarbikarmeistararnir sýndu þó augljóslega hvers vegna þeir eru með tvo bikara í vörslu sinni. Brendan Rodgers og ráðgjafar hans þurfa að reyna að koma betra lagi á varnarleikinn fyrir næsta leik sem er á útivelli við Tottenham Hotspur sem leiðir deildina á markahlutfalli.        

Manchester City: Hart; Zabaleta, Kompany, Demichelis, Clichy; Nasri, Fernando, Toure, Silva (Navas 65. mín.); Jovetic (Fernandinho 80. mín.) og Dzeko (Aguero 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Willy, Sagna, Kolarov og Milner.  

Mörk Manchester City: Stevan Jovetic (41. og 55. mín.) og Sergio Aguero (69. mín.).

Gult spjald: Yaya Toure.

Liverpool: Mignolet; Johnson, Skrtel, Lovren, Moreno; Gerrard; Sterling (Lambert 79. mín.), Allen (Can 74. mín.), Henderson, Coutinho (Markovic 60. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Sakho og Manquillo.

Mark Liverpool: Pablo Zabaleta, sm, (83. mín.).

Gult spjald: Emre Can.  

Áhorfendur á Ethiad leikvanginum: 45.471.  

Maður leiksins: Daniel Sturridge. Þessi magnaði framherji var maðurinn á bak við bestu færi Liverpool auk þess að leggja upp eina markið.

Brendan Rodgers: Við vorum betra liðið þar til þeir skoruðu. Við sváfum á verðinum rétt fyrir hálfleik og fengum tvö slök mörk á okkur. Þeir spiluðu vel saman í öðru markinu en frá okkar sjónarhóli þá var þriðja markið ódýrt. 



                                                                           Fróðleikur



- Þetta var fyrsta tap Liverpool á leiktíðinni.

- Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool tapar deildarleik á útivelli á þessu ári.

- Þrír leikmenn léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool. Alberto Moreno, Lazar Markoic og Emre Can.  

- Mario Balotelli sat uppi í stúku eftir að hafa skrifað undir samning við Liverpool fyrr í dag. 

- Hann vann F.A. bikarinn 2011 og Englandsmeistaratitlinn árið eftir með Manchester City.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan