| Grétar Magnússon

Kaupin á Balotelli staðfest

Nú rétt í þessu staðfesti opinber heimasíða félagsins að kaupin á Ítalanum Mario Balotelli séu gengin í gegn.


Balotelli er 24 ára gamall og kemur frá AC Milan en hann lék áður með Manchester City á Englandi og Inter Milan á Ítalíu. Er hann níundi leikmaðurinn sem kemur til félagsins í sumar.

Hann hafði þetta að segja í sínu fyrsta viðtali: ,,Ég er mjög ánægður. Það hefur verið rætt áður að koma hingað og nú er ég ánægður með að vera kominn."

,,Liverpool eru eitt besta lið Englands og knattspyrnan sem er spiluð hér er mjög góð. Þetta er gott lið með unga leikmenn og þess vegna kom ég."

Balotelli hafði verið hjá AC Milan í eitt og hálft ár þar sem hann skoraði 30 mörk í 54 leikjum. Eins og áður sagði spilaði hann áður á Englandi með Manchester City þar sem hann vann ensku Úrvalsdeildina árið 2012.

Hann hefur einnig unnið á sínum ferli Meistaradeildina með Inter Milan, þrjá deildartitla í ítölsku Seria A og FA bikarinn.

Hann hefur spilað 33 landsleiki fyrir Ítalíu og skorað í þeim 13 mörk.



Hann verður í treyju númer 45 hjá félaginu en það er númerið sem hann hefur ávallt haft á bakinu á sínum ferli.

,,Þegar ég spilaði mína fyrstu leiki með Inter Milan þá var ég mjög ungur. Ég þurfti að vera númer 45 vegna þess að númer á bilinu 36-50 eru skilgreind fyrir unga leikmenn.  Ég tók treyju númer 45 og var að grínast með að 4 + 5 eru 9 og ég skoraði í fyrstu fjórum leikjunum. Treyjan færir mér því heppni og ég hef því haldið tryggð við þetta númer."




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan