| Grétar Magnússon

Markovic vill vera einn af þeim bestu

Lazar Markovic getur ekki beðið eftir því að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið og sýna hvað í sér býr á Englandi í leiðinni.


Þessi tvítugi leikmaður fylgdist með Liverpool á síðasta tímabili þegar hörð atlaga var gerð að titlinum með hreint út sagt stórkostlegum hætti oft á tíðum.  Hann kom svo til félagsins í júlí eftir að hafa átt fínt tímabil í Portúgal með Benfica.

Brendan Rodgers sagði á blaðamannafundi fyrir helgina að Markovic væri klár í slaginn fyrir stórleikinn við City á mánudagskvöldið eftir að hafa átt við smávægileg meiðsli að stríða. Serbinn er ákafur í því að sýna þá hæfileika sem hann hefur áður gert í heimalandinu og Portúgal í ensku deildinni.

,,Ég var kosinn einn af bestu leikmönnunum í Serbíu og Portúgal og ég vonast til þess að vera þekktur sem einn af bestu leikmönnum ensku Úrvalsdeildarinnar," sagði Markovic. ,,Ég hef trú á því að ég verði einn af þeim bestu."

,,Liverpool eru eitt besta félag heims og mér fannst þeir vera með besta liðið á síðasta tímabili í deildinni. Það var óheppni að ekki skyldi takast að vinna titilinn. Ég fylgdist með liðinu mikið á síðasta tímabili. Þeir voru mjög góðir og hefðu átt að verða meistarar."

Markovic tók ekki bara eftir því hvernig liðið spilaði inni á vellinum heldur vöktu stuðningsmenn félagsins athygli hans með ástríðufullum stuðningi - eitthvað sem hann kannast sjálfur við frá sínum ferli.

,,Hvernig stuðningsmenn Liverpool haga sér höfðar til mín. Ég hef verið svo heppinn að hafa spilað með Partizan og Benfica, tvö félög með ástríðufulla stuðningsmenn."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan