| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Loksins er biðin á enda. Fyrsti leikur Liverpool í Úrvalsdeildinni tímabilið 2014-15 er handan við hornið og hér gefur að líta fyrstu upphitun tímabilsins.









Eftir frábæra spilamennsku síðasta tímabils bíðum við stuðningsmenn félagsins spenntir eftir því að veislan hefjist á ný. Margir nýir leikmenn hafa verið keyptir í sumar en eins og allir vita er markahæsti leikmaðurinn horfin á braut til Barcelona. Nú er ekkert annað að gera fyrir aðra leikmenn en að stíga upp og láta okkur stuðningsmenn ekki sakna Luis Suarez.



Fyrsti leikur tímabilsins er gegn Southampton en þrír leikmenn félagsins voru keyptir yfir til Liverpool í sumar, Rickie Lambert, Adam Lallana og Dejan Lovren.  Það er skarð fyrir skildi hjá suðurstrandarliðinu og þeir hafa misst fleiri leikmenn í sumar. Auk þess hafa þeir einnig skipt um þjálfara, nýr stjóri er Hollendingurinn Ronald Koeman en hann stýrði nú síðast liði Feyenoord í hollensku deildinni.







Leikurinn er kl. 12:30 að íslenskum tíma, sunnudaginn 17. ágúst. Að sjálfsögðu verður hann í beinni á heimavelli okkar, Spot í Kópavogi og hvetjum við alla til að fjölmenna þangað og mynda góða stemmningu.



Brendan Rodgers mætti á blaðamannafund eins og lög gera ráð fyrir í dag og tilkynnti að þeir Jon Flanagan, Daniel Agger, Lazar Markovic og Adam Lallana eru ekki klárir í slaginn í fyrsta leik en enginn þeirra glímir við stórvægileg meiðsli. Hjá gestunum er aðeins Jay Rodriguez meiddur en hann hefur ekki náð sér eftir alvarleg meiðsli undir lok síðasta tímabils.

En þrátt fyrir miklar breytingar hjá Southampton má ekki afskrifa þetta lið. Fyrsti tapleikur síðasta tímabils hjá Liverpool var einmitt gegn Southampton í september í fyrra þegar Dejan Lovren skoraði eina mark leiksins á Anfield. Fram að þeim leik hafði Liverpool spilað fjóra leiki í deildinni, unnið þrjá þeirra og gert eitt jafntefli. Miklar væntingar eru gerðar til liðsins á þessu tímabili þrátt fyrir brotthvarf Suarez og fyrsti heimaleikur verður mjög erfiður eins og oft áður. Southampton hafa keypt nýja leikmenn sem ætlað er að fylla skarð þeirra sem hafa horfið á braut og leikmenn liðsins eru örugglega ákafir í að sýna sig og sanna í fyrsta leik á Anfield.

Sé litið yfir síðustu sex leiki liðanna á Anfield hafa Liverpool unnið þrjá, Southampton tvo og eitt jafntefli litið dagsins ljós. Suðurstrandaliðið er því ekki vant að tapa mjög oft á Anfield í seinni tíð.

Spáin er svona að þessu sinni: Liverpool ná sigri í fyrsta leik tímabilsins en fæðingin verður erfið. Lokatölur 2-1 og gott ef Southampton skora ekki fyrsta markið sem mun láta marga stuðningsmenn kaldsvitna. Leikmenn Brendan Rodgers munu samt ekki leggja árar í bát og knýja fram sigur. Ekki myndi skemma fyrir ef einhver dramatík verði í spilunum líkt og í fyrsta leik síðasta tímabils þegar Simon Mignolet varði vítaspyrnu frá Stoke á lokamínútum leiksins.





                                                                            Fróðleikur:

- Þeir Dejan Lovren, Javier Manquillo, Emre Can og Rickie Lambert gætu allir spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið.

- Líklegt er að þeir þrír fyrstnefndu verði allir í byrjunarliðinu líkt og gegn Dortmund í síðasta æfingaleik.

- Steven Gerrard er að hefja sitt 17. tímabil með félaginu.

- Fyrirliðinn mun spila sinn 670. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Daniel Sturridge mun að öllum líkindum spila sinn 50. leik fyrir félagið.

- Sturridge hefur skorað 35 mörk í 49 leikjum fyrir félagið til þessa.

Hér eru leikmenn Liverpool að undirbúa sig fyrir leikinn.



Við þýddum spár Mark Lawrenson, af vefsíðu BBC, í mörg ár og til gamans fær spá hans fyrir fyrsta leik Liverpool á leiktíðinni að fljóta með.



Southampton fór til Liverpool og vann þar 1:0 snemma á síðasta keppnistímabili en eins og gefur að skilja þá munu þeir tefla fram gerbreyttu liði á Anfield á sunnudaginn. Þrír fyrrum Dýrlingar eru nú í herbúðum Liverpool en kannski verður Dejan Lovren sá eini þeirra sem hefur leik á móti gamla liðinu sínu. Adam Lallana er ekki leikfær og Rickie Lambert verður trúlega að sætta sig við að vera á bekknum.



Rekstrarhugmynd Southampton virðist vera að fá leikmenn til sín, þjálfa þá og selja. Þetta er snjallt þegar það virkar en það er erfitt að gera þetta til lengdar. Liverpool hefur reyndar gert góð kaup eftir að þeir seldu Luis Suarez til Barcelona en þeir hafa bara að hluta til svarað því hvernig í veröldinni þeir ætla að skora mörk í því magni sem Luis Suarez gerði. Það er ekki bara magnið sem skiptir máli heldur líka í hvaða gæðaflokki mörkin voru. Við vitum að þeir eru ennþá að leita eftir liðsstyrk því ef Daniel Sturridge meiðist þá hafa þeir engan fljótan framherja.

En í bili eru þeir með lið sem Dýrlingarnir ráða ekki við. Liverpool hefur núna meiri valmögleika í framlínunni en liðið er ekki jafn sterkt og það var þegar Luis var í því. Það verður erfiðara án hans að ná einu af fjórum efstu sætunum.



Úrskurður

Liverpool v Southampton. 2:0.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan